Forsvarsmenn sveitarfélagsins Ölfuss eiga í viðræðum við erlenda fjárfesta um mögulega aðkomu þeirra að uppbyggingu hafnarmannvirkja í Þorlákshöfn. Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag kemur fram að í þeim hópi séu fjársterkir aðilar frá Kína.
Elliði Vignisson bæjarstjóri vill ekki tjá sig um hvaða erlendu aðilar hafi setið fundi um málið. Að hans sögn er gert ráð fyrir að framkvæmdir við hafnarmannvirkin muni að lágmarki kosta 6 til 8 milljarða króna.
Hann segir að sveitarfélagið leiti ýmissa leiða til að tryggja uppbyggingaráform á svæðinu. „Það er hvimleitt fyrir okkur sem leiðum störf sveitarfélaga hér á landi að vera sífellt að fara bónleið til búðar til ríkisins í þeim tilgangi að leita fjármagns í þörf verkefni.“ Elliði segist ekki óttast aðkomu erlendra fjárfesta að þessu verkefni.
„Auðvitað þekkjum við umræðuna um hina stórhættulegu „auðmenn“ sem vilja komast í fjárfestingar. Við óttumst hins vegar ekki aðkomu þeirra að hinu öfluga Ölfusi.“