Kortavelta Íslendinga í innlendri fataverslun jókst um 13,1% í ágúst síðastliðnum og nam tæpum 2,2 milljörðum í ágúst nú samanborið við rúma 1,9 milljarða í ágúst í fyrra. Þetta kemur fram í nýjum hagtölum frá Rannsóknarsetri verslunarinnar. Tölurnar byggja á kortanotkun og greiðslumiðlun á Íslandi.
Vöxtur hefur verið í fataverslun undanfarna mánuði og hefur kortavelta í flokknum aukist um 17% ef tímabilið apríl til ágúst 2018 er borið saman við sama tímabil í fyrra, eða sem nemur 1,6 milljörðum yfir tímabilið.
Rannsóknarsetur verslunarinnar telur þetta vera til marks um ágætan kaupmátt landsmanna þessi misserin og þá kann opnun H&M hérlendis í lok ágúst í fyrra að skýra vöxtinn að hluta.
Þá hefur netverslun Íslendinga hjá innlendum netverslunum með föt einnig aukist á sama tímabili um 29% og nam 379 milljónum í samanburði við ríflega 11 milljarða í búðum og nam netverslunin því 3,4% af kortaveltu flokksins.
Maí- og júnímánuðir standa nokkuð upp úr þegar kortavelta í raf- og heimilistækjum er skoðuð í samanburði við mánuðina í kring. Þannig jókst velta raftækja um 11,5% í júní og júlí, frá sömu mánuðum í fyrra, samanborið við hóflegri vöxt mánuðina áður og nokkurn samdrátt í júlí.
Ekki er ólíklegt að heimsmeistaramótið í fótbolta sem hófst í júní hafi átt sinn þátt í aukningunni og margir hafi ákveðið að endurnýja sjónvarpstækin fyrir keppnina, segir í tilkynningu Rannsóknarseturs verslunarinnar.