Rannsókn er hafin á tengslum breskra fyrirtækja við peningaþvætti í gegnum útibú Danske Bank í Eistlandi. Breska lögreglustofnunin National Crime Agency fer fyrir rannsókninni.
Talskona stofnunarinnar segir að haldbær gögn liggi fyrir um að fyrirtæki skráð í Bretlandi tengjast málinu.
Meint peningaþvætti Danske Bank er eitt stærsta mál sinnar tegundar sem upp hefur komið í Evrópu. Í gær kom fram að bankinn geti ekki hent reiður á hversu stór hluti upphæðarinnar, alls 200 milljarðar evra, sem runnu í gegnum útibú bankans í Eistlandi, hefði verið peningaþvætti en upphæðirnar streymdu í gegnum útibúið í Eistlandi á milli 2007 og 2015.
Breska lögreglustofnunin nýtur aðstoðar stofnana breska ríkisins við rannsókn málsins.