Stjórn N1 hefur ákveðið að leggja fram nýja tillögu að starfskjarastefnu fyrir hluthafafundinn sem fer fram í næstu viku. Breytingarnar fela m.a. í sér að kaupauki forstjóra getur orðið að hámarki 3 mánuðir frá og með 1. janúar 2019 í stað 6 mánaða áður. Með þessu vill N1 skapa fordæmi í með því að sýna hógværð í breytilegum launagreiðslum til æðstu stjórnenda.
Þetta kemur fram í tilkynningu sem Margrét Guðmundsdóttir, stjórnarformaður N1, hefur sent hluthöfum fyrir hönd stjórnarinnar.
Hún segir að hún hafi átt samtöl við stærstu hluthafa félagsins um framlagða tillögu að starfskjarastefnu fyrir félagið sem verður tekin fyrir hluthafafund í N1 þann 25. september 2018. Þessi samtöl hafi verið mjög gagnleg og hafi stjórn N1 nú ákveðið að leggja fram nýja tillögu að starfskjarastefnu fyrir hluthafafundinn.
„Markmið starfskjarastefnunnar er að tryggja að hagsmunir starfsmanna, stjórnenda og stjórnar fari saman við langtímaárangur félagsins og langtímahagsmuni eigenda þess, sem eru að stærstum hluta lífeyrissjóðir.
Breytingarnar fela í sér að kaupauki forstjóra getur orðið að hámarki 3 mánuðir frá og með 1. janúar 2019 í stað 6 mánaða áður. Einnig er fallið frá heimild til að greiða forstjóra umfram ráðningarsamning komi til uppsagnar á ráðningarsamningi og heimild til upphafsgreiðslu til forstjóra við ráðningu. Slíkar greiðslur hafa aldrei verið inntar af hendi og því er hér ekki um stóra breytingu að ræða,“ segir Margrét.
Þá segir hún jafnframt, að stjórn félagins telji jafnframt mikilvægt að kaupaukagreiðslur séu hluti af ráðningarkjörum forstjóra til að samtvinna betur hagsmuni hluthafa og stjórnenda en mikilvægt sé að víðtæk sátt sé um slíkt fyrirkomulag og er það trú mín að með þessum breytingum náist það.
„Með þessu vill stjórn N1 skapa fordæmi í íslensku atvinnulífi með því að sýna hógværð í breytilegum launagreiðslum til æðstu stjórnenda en telur jafnframt mikilvægt að allir sýni í verki vilja til að ná sátt um launaþróun í landinu. Með þessum breytingum telur stjórnin að komið sé til móts þá gagnrýni sem fram hefur komið og er rétt að undirstrika að um er að ræða heimild til greiðslu kaupauka, en ekki skyldu.
Hér má sjá breytta tillögu stjórnar til hluthafafundar um starfskjarastefnu N1.