Greiningardeild Arion banka gerir ráð fyrir mjög lítilli fjölgun ferðamanna á næstu árum, eins og það var orðað á morgunfundi deildarinnar fyrr í morgun. Þar kom fram að gert er ráð fyrir að ferðamönnum fjölgi um 4,5% á þessu ári, 1,4% árið 2019, 2,4% árið 2020 og 2,7% árið 2021.
Á fundinum fóru sérfræðingar greiningardeildarinnar, þau Elvar Ingi Möller, Þorsteinn Andri Haraldsson og Erna Björg Sverrisdóttir, yfir ferðamannaiðnaðinn frá ýmsum hliðum, og veltu upp svartsýnum sviðsmyndum og bjartsýnum á víxl.
Eitt af því sem fram kom í máli þeirra var að flugfargjöld þyrftu að hækka, enda væri rekstrartap Icelandair og WOW air í ár um 1.000 kr. á hvern flugfarþega. Erna Björg velti því þó fyrir sér hvaða áhrif slík hækkun gæti haft á ferðaiðnaðinn hér á landi, og sagði hún líkur á að til dæmis 10% hækkun flugfargjalda myndi leiða til „skells“ sem hefði í för með sér töluvert minnkandi heildarneyslu ferðamanna hér á landi, fækkun starfa í ferðageiranum og minni útflutningtekjur þjóðarinnar, sem þýddi að viðskiptajöfnuður færi úr því að vera jákvæður yfir í viðskiptahalla.
Í máli sérfræðinganna kom fram að greiningardeildin hafi fært niður spá sína um komur ferðamanna hingað til lands, þar sem WOW air hafi dregið umtalsvert úr sínum vaxtarhorfum. Vísað var þar í nýafastaðið skuldabréfaútboð félagsins, en þar líti félagið svo á að vaxtarskeiði þess sé lokið og við taki þroskaskeið, þar sem einblína eigi á bættan rekstur.
Framboðsskellur í flugi hingað til lands, eins og Elvar Ingi orðaði það á fundinum, gæti þýtt að Ísland færi tvö ár aftur í tímann, hvað varðar komur flugfarþega til landsins. Það myndi þýða 17,8% fækkun farþega á næsta ári, 10,1% 2020 og 5,5% 2021.
Sérfræðingarnir birtu einnig bjartsýna sviðsmynd, þar sem búist er við batnandi rekstri flugfélaganna, meðal annars þar sem boðið verður upp á ferðir til Asíu, en þar er gert ráð fyrir 4,5% vexti á næsta ári, 6,5% árið 2020 og 7,1% árið 2021.