Stofnendur samfélagsvefjarins Instagram, Kevin Systrom og Mike Krieger, eru báðir hættir hjá fyrirtækinu, samkvæmt heimildum New York Times en Facebook keypti Instagram fyrir sex árum síðan fyrir milljarð Bandaríkjadala.
Systrom og Krieger hafa báðir látið af störfum sínum sem framkvæmdastjóri og yfirmaður tæknimála. Þeir hættu ekki á sama tíma og hafa ekki gefið neina skýringu á brotthvarfi sínu aðra en að þeir hafi ætlað sér að fara í langt leyfi. Facebook hefur ekki svarað fjölmiðlum þegar óskað hefur verið eftir skýringum á brotthvarfi tvímenninganna frá því NYT birti fréttina í nótt.
Greint var frá því í júní að Instagram væri komið yfir milljarðs múrinn, það er að notendur forritsins væru orðnir yfir einn milljarður. Instagram varð þar fjórði vettvangur Facebook sem náði milljarði notenda en áður hafði Facebook, WhatsApp og Messenger náð þeim áfanga.
Facebook yfirtók Instagram í apríl 2012 og greiddi fyrir það bæði með peningum og hlutabréfum. Kaupverðið var metið á einn milljarð Bandaríkjadala á þeim tíma sem svarar til 110 milljarða króna í dag.
Brotthvarf tvímenninganna kemur á sama tíma og Facebook glímir við stærstu áskorun sína allt frá stofnun en fyrirtækið er gagnrýnt fyrir að gæta ekki betur upp á dreifingu upplýsinga á vefnum. Telja margir að Facebook beri ábyrgð á að dreifa lygum og falsfréttum, þeim mestu sem um getur á síðustu árum. Með þessu hafi Facebook haft áhrif á niðurstöður kosninga, svo sem forsetakosningarnar í Bandaríkjunum árið 2016.
Facebook er til rannsóknar hjá bandarískum og breskum yfirvöldum eftir að fyrirtækið Cambridge Analytica viðurkenni að það hefði nýtt persónuupplýsingar 87 milljóna Facebook-notenda til að aðstoða Donald Trump við að hafa sigur í bandarísku forsetakosningunum.
Stofnandi WhatsApp, Jan Koum, lét af störfum fyrir Facebook fyrr á árinu en Facebook greiddi 19 milljarða Bandaríkjadala fyrir snjallsímaþjónustuna.