Vilja sameina FME og Seðlabanka

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er með höfuðstöðvar sínar í Washington.
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er með höfuðstöðvar sínar í Washington.

Sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS), sem að undanförnu hefur gert úttekt á stöðu efnahagsmála hér á landi, segir að nú þegar liðin eru 10 ár frá hruni fjármálakerfisins sé kominn tími til „aðgerða í stað umræðna“.

Þannig segir nefndin að hún sjái kosti þess að sameina allt eftirlit með fjármálageiranum, þrautavaralánveitingar og verkefni skilavalds í Seðlabanka Íslands. „Það myndi auka samlegðaráhrif, koma í veg fyrir óþarfa skörun verkefna, samþætta betur eindar- og þjóðhagsvarúð, endurspegla kerfislegt mikilvægi íslensku lífeyrissjóðanna og efla viðbúnað fyrir hnekki í framtíðinni. Með því að færa í reynd fjármálaeftirlit inn í Seðlabankann mætti einnig lágmarka annmarka í breytingarferlinu.“ Nefndin kynnti niðurstöður úttektar sinnar á fundi í Hannesarholti nú í morgun.

Hægt hefur á vexti í ferðaþjónustu.
Hægt hefur á vexti í ferðaþjónustu. mbl.is/Rax

Minni hætta á ofhitnun

Hægari vöxtur í íslenska hagkerfinu hefur dregið úr hættunni á ofhitnun að mati sendinefndar AGS. Í áliti hennar kemur m.a. fram að styrking krónunnar á árinum 2014-2016 hafi slegið á mikinn vöxt í ferðaþjónustu og leitt til minni eftirspurnar innanlands. Þá hafi aukið framboð nýs íbúðarhúsnæðis dregið úr mikilli hækkun fasteignaverðs. Á sama tíma séu skuldir að þokast upp á við en að skuldahlutfall í hagkerfinu hafi verið mjög lágt. Þá hafi krónan reynst fremur stöðug frá miðju ári 2017 sem hafi gert starf útflutningsfyrirtækja bærilegra en ef hinn mikli styrkingarfasi hefði haldið áfram. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gerir nú ráð fyrir að hagkerfið nái mjúkri lendingu og að það muni að lokum ná jafnvægi í sjálfbærum 2,5% vexti.

Aukin áhætta vegna flugfélaganna

Á sama tíma nefnir AGS að nýjar áskoranir mæti íslensku hagkerfi. „Hátt olíuverð og aukin samkeppni í flugsamgöngum eru áskoranir sem flugþjónustan stendur frammi fyrri. Aukin spenna í alþjóðaviðskiptum gæti haft neikvæð áhrif á útflutningsverð á áli og öðrum varningi,“ segir í niðurstöðu sendinefndarinnar. Bendir hún einnig á að óvissan sem tengist útgöngu Breta úr Evrópusambandinu auki hættuna á minni efirspurn frá einum stærsta útflutningsmarkaði Íslendinga og gæti þar að auki aukið flækjustig í samvinnu sjávarútvegsfyrirtækja við Norður-Atlantshaf. Þá bendir nefndin einnig á að kjarasamningalotan á almennum vinnumarkaði, sem fram undan er, kunni að leiða til mikilla launahækkana og þar með „skaða“ samkeppnishæfni landsins.

Icelandair og WOW air heyja nú harða samkeppni við önnur …
Icelandair og WOW air heyja nú harða samkeppni við önnur flugfélög á leiðunum yfir Atlantshafið. Ljósmynd/Sigurður Bogi Sævarsson

Segir nefndin að í ljósi fyrrgreindrar áhættu og þeirrar staðreyndar að hagkerfið er lítið, opið og næmt fyrir áföllum sé mikilvægt að búa vel í haginn með því að halda skuldum heimilanna lágum, tryggja sterkan efnahag bankakerfisins og lausafjárstöðu þess, að hið opinbera byggi upp varasjóði og að á sama tíma byggi stefnumörkun stjórnvalda á því að ýta undir vaxtarmöguleika hagkerfisins, styrkja samkeppnishæfni þess og dregur úr áhættusækni innan þess.

Vill meira gagnsæi í ríkisfjármálum

AGS lýsi ryfir stuðningi við stefnu stjórnvalda í ríkisfjármálum en kallar þó eftir meira gagnsæi þegar kemur að því sem nefndin kallar „undirliggjandi áform“.  Þá telur nefndin að vanda þarfi til forgangsröðunar þegar kemur að fjármögnun verkefna á sviði innviða, heilbrigðismála og menntunar. Einnig telur AGS að stefna stjórnvalda sé líkleg til að skila jafnvægi í ríkisfjármálum og að það muni auka rými til sveiflujafnandi aðgerða ef áföll dynja yfir.

Styðja ákveðið form hafta

Nefndin lýsir einnig stuðningi við það sem hún kallar „áform stjórnvalda um að endurnýja lagagrundvöll fjárstreymistækis í formi sérstakrar bindingarskyldu á tiltekið innflæði fjármagns“. Vísar nefndin þar til reglna sem settar hafa verið í því skyni að hefta fjármagnsflæði erlendis frá inn á innlendan skuldabréfamarkað.

Segir nefndin að tæki af þessu tagi geti reynst gagnlegt við ákveðnar kringumstæður svo framarlega sem þau komi ekki stað nauðsynlegrar aðlögunar í þjóðarbúskapnum.

Bent er á mikilvægi þess að horfa til framleiðniaukningar í …
Bent er á mikilvægi þess að horfa til framleiðniaukningar í hagkerfinu þegar kjarabætur eru ákvarðaðar. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Litið verði til framleiðniaukningar í kjarasamningagerð

Nefndin bendir á að mikilvægt sé í komandi kjarasamningum að líta til þeirrar framleiðniaukningar sem möguleg er í hagkerfinu. Kaupmáttur hafi á síðustu árum aukist um 25% sem sé eftirtektarvert en að nú sé kominn tími til að tengja betur samningalíkan á vinnumarkaði við fyrrnefnda framleiðniaukningu og samkeppnishæfni landsins.

Að lokum nefnir nefndin að styrkja þurfi sjálfbærni hagvaxtar. Hægari vöxtur í ferðaþjónustu hafi leitt í ljós mikilvægi þess að grípa til áþreifanlegra aðgerða til að bæta þjónustu við vinsæla ferðamannastaði og aðgengi að stöðum lengra frá Reykjavík. Þá bendir nefnd AGS á að varfærin stjórn á sjávarauðlindum sé lykilatriði í velgengni geirans. Þá eigi að leggja áherslu á að tryggja varanlega samninga við aðrar fiskveiðiþjóðir á Norður-Atlantshafi um nýtingu flökkustofna.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK