Spá sterku gengi krónunnar út áratuginn

Greiningardeildin spáir lækkandi hagvexti á komandi árum og lægri raunhækkun …
Greiningardeildin spáir lækkandi hagvexti á komandi árum og lægri raunhækkun húsnæðisverðs, en að gengi krónunnar haldist áfram sterkt út áratuginn. mbl.is/Árni Sæberg

Greiningardeild Íslandsbanka spáir að meðaltali 3,5% verðbólgu á næsta ári, en það er um einu prósentustigi yfir verðbólgumarkmiði Seðlabankans. Undanfarin ár hefur verðbólgan verið um og undir 2%, en er í dag rétt við 2,5%. Þetta kemur fram í nýrri þjóðhagsspá bankans sem gefin var út í dag.

Þá spáir greiningardeildin því að árið 2020 verði verðbólga um 3,2%, en til grundvallar þessum forsendum liggja tiltölulega hóflegar hækkanir launa og húsnæðisverðs. Í þeirri kjarasamningalotu sem fram undan er á eftir að koma í ljós hvort þær forsendur standi. Myndi meiri hækkun auka enn á verðbólguþrýsting þegar frá líður.

Hagvöxtur fari lækkandi á næstu árum

Í þjóðhagsspánni er því einnig spáð að hagvöxtur á þessu ári verði 3,4% og að hann fari niður í 1,5% á næsta ári. Árið 2020 er svo gert ráð fyrir að hann aukist á ný og fari í 2,8%. Þar kemur við sögu líflegri vöxtur einkaneyslu, viðsnúningur til vaxtar í atvinnuvegafjárfestingu og áframhaldandi vöxtur annarrar fjárfestingar sem og útflutnings. Þegar spáð er fyrir um hagvöxt á næsta ári er meðal annars horft til þess að greiningardeildin gerir ráð fyrir að atvinnuvegafjárfesting dragist saman á næsta ári og valdi því heildarfjárfesting dragist saman um 0,6% það árið. Heildarfjárfesting verði hins vegar komin upp í 6% árið 2020.

Minni hækkun íbúðaverðs í kortunum

Greiningardeildin spáir því að meira samræmi verði á íbúðamarkaði milli framboðs og eftirspurnar en undanfarin ár þegar mikill framboðsskortur hefur verið. Horfur séu áfram á vaxandi framboði nýrra íbúða og er í þjóðhagsspánni gert ráð fyrir að íbúðaverð muni að jafnaði hækka um 5,6% að raunvirði á yfirstandandi ári. Árið 2019 verði hækkun raunverðs íbúðarhúsnæðis 2% og árið 2020 verði hækkunin 1,2%.

„Hægari kaupmáttaraukning, minni fólksfjölgun og áframhaldandi aukning á framboði nýrra íbúða eru meðal helstu skýringa á hægari hækkun íbúðaverðs. Má segja að þróunin muni endurspegla betra jafnvægi á íbúðamarkaði en var á síðasta ári,“ segir í þjóðhagsspánni.

Gengi krónunnar í hámarki en haldist sterkt

Þá telur greiningardeildin að gengi krónunnar sé komið í hámark, en að hún muni áfram vera tiltölulega sterk. „Hrein eignastaða hagkerfisins er betri en hún hefur verið áratugum saman og Seðlabankinn hefur úr myndarlegum gjaldeyrisforða að spila til að afstýra gengishruni vegna tímabundins fjármagnsflótta. Gangi spá okkar eftir mun afgangur verða af viðskiptajöfnuði út áratuginn,“ segir í þjóðhagsspánni.

Með þessu ætti að sögn greiningardeildarinnar áhugi erlendra fjárfesta að vera nægur til að vega upp útflæði vegna vilja lífeyrissjóða til að fjárfesta erlendis. „Allt þetta ætti að vega til tiltölulega hás raungengis út áratuginn.“

Þjóðhagsspá greiningardeildar Íslandsbanka 2018-2020

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK