Matarkarfan hækkar í september um 1,2% og er þetta mesta hækkun hennar frá því október í fyrra. Matarkarfan hefur hækkað um 5,1% undanfarna mánuði, að því er segir í greiningu á vísitölu neysluverðs greiningardeildar Arion banka.
Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,24% á milli mánaða í september skv. nýbirtum tölum Hagstofunnar. Ársverðbólgan hækkaði þar með í 2,7%, úr 2,6% í ágúst.
„Verðbólguspár greiningaraðila voru á bilinu 0,3-0,4% og er mælingin því rétt fyrir neðan spábil greiningaraðila sem birta spár opinberlega. Við spáðum 0,3% hækkun. Helsta frávikið frá okkar spá má rekja til matarkörfunnar, sem hækkaði um 1,2%. Matarkarfan hefur ekki hækkað jafn mikið í verði síðan í október á síðasta ári þegar hækkunin milli mánaða nam 1,9%. Meðalhækkun matarkörfunnar hefur verið 0,2% á mánuði að meðaltali frá því í október á síðasta ári fram í ágúst á þessu ári, og hefur hækkað um 5,1% undanfarna 12 mánuði.
Reiknuð húsaleiga hækkaði aftur á móti minna en við höfðum spáð og sömuleiðis heilsa. Út frá spágetu deildarinnar í september mætti halda að um væri að ræða móðins, ferðaglaða einstaklinga í ljósi þess að verðbreytingar á fatnaði og skóm og flugfargjöldum voru í góðu samræmi við okkar væntingar,“ segir í greiningu Arion banka.