Gistinóttum fjölgaði þrátt fyrir fækkun ferðamanna

Gistinóttum fjölgaði um 10% í ágúst og þar af um …
Gistinóttum fjölgaði um 10% í ágúst og þar af um 7% á hótelum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gistinætur ferðamanna á öllum gististöðum í ágúst síðastliðnum voru 1.734.000, en þær voru 1.575.000 í sama mánuði árið áður. Gistinætur á hótelum og gistiheimilum voru 714.500, gistinætur á farfuglaheimilum, svefnpokaplássi og tjaldsvæðum voru 688.500, og 331.000 í gegnum vefsíður á borð við Airbnb. Heildarfjöldi gistinátta í ágúst jókst um 10% milli ára, þar af var 7% fjölgun á hótelum og gistiheimilum, 16% fjölgun á öðrum tegundum gististaða og 6% fjölgun á stöðum sem miðla gistingu gegnum Airbnb og svipaðar síður. Þetta kemur fram í nýjum tölum Hagstofunnar sem birtar voru í morgun.

130 þúsund gistinætur sem ekki er greitt fyrir

Til viðbótar við þessar tölur eru áætlaðar gistinætur erlendra ferðamanna í bílum utan tjaldsvæða 84.000 og hjá vinum og ættingjum eða í gegnum húsaskipti eða á öðrum stöðum þar sem ekki var greitt sérstaklega fyrir gistingu 46.000.

Samkvæmt tölum Ferðamálastofu um fjölda farþega um Keflavíkurflugvöll í ágúst sem birtar voru í byrjun septembermánaðar fækkaði ferðamönnum hins vegar um 2,8% í ágústmánuði.

Gistinætur á hótelum í ágúst síðastliðnum voru samkvæmt tölum Hagstofunnar 496.500, sem er 7% aukning frá sama mánuði árið áður. Um 51% allra gistinátta voru á höfuðborgarsvæðinu eða 250.800.

Herbergjanýting dregst aðeins saman

Um 93% gistinátta á hótelum voru skráðar á erlenda ferðamenn eða 459.400. Bandaríkjamenn voru með flestar gistinætur (163.400), síðan Þjóðverjar (47.500) og Kínverjar (32.500), en gistinætur Íslendinga voru 37.100.

Herbergjanýting í ágúst 2018 var 84,8%, sem er lækkun um 1,9 prósentustig frá ágúst 2017 þegar hún var 86,7%. Á sama tíma hefur framboð gistirýmis aukist um 8,1% mælt í fjölda herbergja. Nýtingin í ágúst var best á Suðurnesjum, eða 94,1%.

243 þúsund gistinætur gegnum Airbnb

Hagstofan birtir nú einnig fyrstu tölur fyrir gistinætur utan hefðbundinnar gistináttaskráningar í júlí. Áætlað er að fjöldi gistinátta í gegnum vefsíður á borð við Airbnb í júlí hafi verið 243.600, auk þess sem fjöldi erlendra gistinátta í bílum utan tjaldsvæða var 51.400, og 28.300 erlendar gistinætur hafi í júlí verið á stöðum þar sem ekki var greitt sérstaklega fyrir gistingu. Verið er að yfirfara aðferðir við áætlun þeirra gistinátta sem metnar eru út frá Landamærarannsókn Ferðamálastofu og Hagstofu Íslands og gæti sú yfirferð haft áhrif á tölur bæði fyrir 2017 og 2018.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK