Von á frekari hagræðingu í fluggeiranum

Icelanda­ir Group til­kynnti í morg­un að fé­lagið mun í dag …
Icelanda­ir Group til­kynnti í morg­un að fé­lagið mun í dag hefja viðræður við full­trúa skulda­bréfa­eig­enda sem ráða yfir meira en 50% af út­gefn­um óveðtryggðum skulda­bréf­um fé­lags­ins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Það liggur í augum uppi að líkur eru á að Icelandair Group muni ekki ná að uppfylla skilmála skuldabréfa félagsins þar sem það hefur lækkað EBITDA-spá sína nokkuð þar sem horf­ur í rekstri Icelanda­ir Group á ár­inu 2018 eru lak­ari en fé­lagið hafði gert ráð fyr­ir. Þetta segir Sigurður Örn Karlsson, greinandi hjá IFS.

Icelanda­ir Group tilkynnti í morgun að félagið mun í dag hefja viðræður við full­trúa skulda­bréfa­eig­enda sem ráða yfir meira en 50% af út­gefn­um óveðtryggðum skulda­bréf­um fé­lags­ins sem eru að nafn­v­irði 190 millj­ón­ir Banda­ríkja­dala, 21,5 millj­arðar króna. Viðræðurn­ar eru til­komn­ar vegna þess að lík­legt er að af­koma Icelanda­ir upp­fylli ekki skil­mála skulda­bréf­anna.

Erfiðleikar í flugrekstri ekki einskorðaðir við Ísland

Sigurður segir að ekki sé hægt að spá fyrir um niðurstöðu viðræðnanna en að nokkrir möguleikar séu í boði, líkt og fram komi í tilkynningunni.

„Félögin þurfa að sækja sér aukið fjármagn til að ráða við hækkandi olíuverð og mögulega hækkandi launakostnað. Staðan á markaðnum er erfið hvað þetta varðar,“ segir Sigurður, sem á von á frekari hagræðingu í fluggeiranum á næstu misserum. „Við lítum á það í heild sinni fyrir flugmarkaðinn, sérstaklega í Evrópu, að það eiga eftir að verða hagræðingar þar, sameiningar á flugfélögum,“ segir hann og bendir á að samþætting á flugmarkaði í Bandaríkjunum hefur verið meiri en í Evrópu upp á síðkastið.

„Það er ekki einskorðað við Ísland að það séu erfiðleikar í flugrekstri, það hefur verið gríðarleg framboðsaukning í flugi yfir Atlantshafið, sem hefur orsakað lægra flugverð þannig að við munum væntanlega sjá á komandi misserum frekari hagræðingar í flugbransanum í Evrópu.“

Sigurður segir að með frekari hagræðingu sækist flugfélögin eftir því að bæta stöðu félaganna gagnvart þróun á mörkuðum varðandi flugverð, olíuverð og aðra kostnaðarliði. „Hvort að íslensku félögin séu þar inn í myndinni er erfitt að segja til um.“

Erfitt að segja til um áframhaldandi lækkun hlutabréfa

Hluta­bréf í Icelanda­ir lækkuðu við upp­haf viðskipta í Kaup­höll­inni í morgun eft­ir að til­kynnt var um að fé­lagið myndi hefja viðræður við full­trúa skulda­bréfa­eig­enda. Í rúmlega 39 millj­óna viðskipt­um nú í morg­un hafa hluta­bréf Icelanda­ir lækkað um 3,29%.

Sigurður segir að erfitt sé að segja til um hvort von sé á frekari lækkun hlutabréfa í félaginu. „Þau eru búin að lækka mjög mikið á undanförnum mánuðum en það er erfitt að segja nákvæmlega til um það.“  

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka