Pétur Hreinsson,
„Við teljum mjög líklegt miðað við EBITDA-hagnaðinn sem við erum að horfa á að kvaðirnar muni falla,“ segir Bogi Nils Bogason, starfandi forstjóri Icelandair Group, en samstæðan sendi frá sér tilkynningu í gær þess efnis hún hygðist fara í viðræður við skuldabréfaeigendur sem eiga óveðtryggð skuldabréf að nafnvirði 190 milljónir bandaríkjadala.
Morgunblaðið greindi frá því 29. ágúst síðastliðinn að skilmálar sem í gildi væru vegna skuldabréfaútgáfu félagsins kynnu að vera í uppnámi vegna versnandi horfa í rekstri. Skilmálarnir kveða á um að vaxtaberandi skuldir Icelandair megi á engu reikningstímabili fara yfir hlutfallið 3,5.
Neðri mörk EBITDA-spár Icelandair eru 80 milljónir dala og það virðist vera líklegur rekstrarhagnaður fyrir árið. Í tilkynningu kemur fram að félagið meti þá möguleika sem eru í stöðunni. Þeir eru m.a. að óska eftir tímabundinni undanþágu frá hinum fjárhagslegu kvöðum, breytingar á skilmálum skuldabréfanna eða uppgreiðslu þeirra að hluta til eða öllu leyti. Allt er opið í þeim efnum að sögn Boga og hefur félagið mikinn sveigjanleika. „Staðan er mjög sterk. Þetta er verkefni sem við klárum auðveldlega og hefur engin áhrif á önnur plön.“