Heiminum stendur ógn af tollastríðinu

AFP

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn varar við því að viðskiptastríð milli Bandaríkjanna og Kína geti valdið því að heimurinn verði fátækari og hættulegri. AGS hefur lækkað spá sína um hagvöxt í heiminum í ár og á næsta ári.

Í nýrri spá sjóðsins mun viðskiptastríð ríkjanna tveggja hafa veruleg áhrif til hins verra á bata hagkerfa heimsins. 

Nýverið tilkynntu kínversk stjórnvöld um nýja verndartolla á bandarískar vörur sem hafa áhrif á 60 milljarða Bandaríkjadala viðskipti. Þar á meðal er jarðgas sem er framleitt í ríkjum þar sem Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, nýtur mikilla vinsælda. 

AGS spáir nú 3,7% hagvexti í ár og eins á næsta ári. 

Ríkisstjórn Trumps lítur svo á að Kína hafi, svo áratugum skiptir, verið að „svindla“ í viðskiptum. En þegar Bandaríkin hófu að hækka tolla í júlí þá voru fyrstu viðbrögð Kínverjanna ekki eftirgjöf heldur að hækka tollana sín megin á móti.

Báðar fylkingar eru reiðubúnar að heyja tollastríð því þær telja sigurlíkur sínar góðar. Bandaríkin halda að hagkerfi Kína sé í erfiðleikum statt og því viðkvæmt fyrir hvers kyns efnahagslegum þrýstingi frá Bandaríkjunum. Larry Kudlow, yfirefnahagsráðgjafi Hvíta hússins, sagði nýverið að „hagkerfi Kína væri á leið beint í ruslið“. Bandaríkjamennirnir vita líka að það er mikill afgangur af vöruskiptum Kínverja við Bandaríkin og hefur Kína því meiru að tapa í tollastríði.

Kínverska ríkisstjórnin heldur, aftur á móti, að það valdboðskerfi sem þar er við lýði eigi auðveldara með að standa af sér viðskiptastríð en ameríska kerfið, sem er viðkvæmara fyrir alls kyns þrýstingi og óánægju neytenda. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka