Innflutningstakmarkanir ólögmætar

Íslenska ríkið er skaðabótaskylt fyrir að hafa stöðvað innflutning á …
Íslenska ríkið er skaðabótaskylt fyrir að hafa stöðvað innflutning á 83 kílóum á nautalundum frá Hollandi árið 2014 og fargað þeim. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Íslensk lög og reglur, sem kveða á um að afla skuli leyfis fyrir innflutningi kjöts, eggja og mjólkurafurða og gera kröfu um frystingu kjöts, brjóta í bága við skuldbindingar Íslands samkvæmt EES-samningnum.

Nú er endanlega orðið ljóst að þetta er mat íslenskra dómstóla, eftir að Hæstiréttur Íslands kvað upp dóm í máli Ferskra kjötvara ehf. gegn íslenska ríkinu í dag, en Hæstiréttur staðfesti dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu frá því í nóvember 2016.

Íslenska ríkið er skaðabótaskylt fyrir að hafa stöðvað innflutning fyrirtækisins á 83 kílóum á nautalundum frá Hollandi árið 2014 og fargað þeim, þar sem ekki var hægt að sanna að kjötið hefði verið geymt í frysti í einn mánuð.

Bæði Samtök verslunar og þjónustu og Félag atvinnurekenda hafa sent frá sér viðbrögð við niðurstöðu Hæstaréttar. Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir að nú sé „síðasta tylliástæða stjórnvalda“ og Kristjáns Þórs Júlíussonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til að bíða með að fella úr gildi innflutningsbann á fersku kjöti úr sögunni.

„Félag atvinnurekenda hvetur ráðherrann eindregið til að grípa þegar í stað til aðgerða til að aflétta þessu ólöglega og óþarfa banni,“ er haft eftir Ólafi á vef félagsins.

Fagna niðurstöðunni

Samtök verslunar og þjónustu fagna niðurstöðu Hæstaréttar í fréttatilkynningu og segja hana í fullu samræmi við fyrri ábendingar samtakanna, sem hafa háð áralanga baráttu fyrir afnámi þessara takmarkanna.

Samtökin skora á stjórnvöld og Alþingi að „taka á málinu í samræmi við þjóðréttarlegar skuldbindingar íslenska ríkisins. Er það krafa SVÞ að innflutningur á fersku kjöti, sem unnið er í samræmi við strangar samevrópskar kröfur og undir eftirliti annarra EES-ríkja, verði heimilaður hér á landi í samræmi við EES-löggjöfina,“ segir í fréttatilkynningu samtakanna.

Nýtt frumvarp um dýrasjúkdóma í febrúar

Viðbrögð stjórnvalda við dómi Hæstaréttar voru birt á vef stjórnarráðsins síðdegis. Þar er tekið fram að frá því að EFTA-dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu í nóvember í fyrra, að Ísland væri ekki að standa við skuldbindingar sínar samkvæmt EES-samningnum með innflutningstakmörkunum á fersku kjöti, hefði það verið forgangsmál stjórnvalda að tryggja að staðið verði við skuldbindingarnar.

„Við þá vinnu hefur verið lögð áhersla á að tryggja öryggi matvæla og vernd búfjárstofna. Í júlí sl. sendi Ísland umsókn til Eftirlitsstofnunar EFTA um heimild til að beita reglum um viðbótartryggingar. Slíkar tryggingar, sem önnur Norðurlönd hafa þegar fengið, munu gera stjórnvöldum kleift að krefjast ákveðinna vottorða um að tilteknar afurðir séu lausar við salmonellu. Þá er unnið að fjölmörgum öðrum aðgerðum, m.a. varðandi kampýlóbakter,“ segir á vef stjórnarráðsins, en stefnt er að því að mæla fyrir frumvarpi til breytinga á lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim í febrúar næstkomandi.

Dómur Hæstaréttar Íslands

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK