Mikill áhugi Íslendinga á golfi og golfferðum til útlanda er ekki nýtilkominn en svo virðist sem hann sé engu að síður enn að aukast. Samkvæmt upplýsingum frá ferðaskrifstofum sem Morgunblaðið ræddi við hefur bókunum í golfferðir fjölgað mikið á milli ára auk þess sem fólk fer í auknum mæli í golfferðir á eigin vegum.
Úrval áfangastaða hefur að sama skapi aukist mikið og er orðið fjölbreyttara en áður. Hefðbundnir áfangastaðir eins og Spánn, Portúgal og Flórída virðast enn sem fyrr vera vinsælastir en áhugi á meira framandi áfangastöðum er einnig til staðar. Nú er hægt að kaupa pakkaferðir til Póllands, Kúbu, Egyptalands, Marokkó og Arabísku furstadæmanna svo dæmi séu tekin.
„Eins og þetta hefur þróast hjá mér þá finn ég fyrir verulegri aukningu milli ára. Árið 2018 hefur verið alveg frábært og farið langt fram úr væntingum, bæði vorið og haustið. Ég held að það sé tvennt sem spilar inn í; Það er annars vegar gengi gjaldmiðla og svo er það hagstæðara verð á ferðum,“ segir Júlíus Geir Guðmundsson, framkvæmdastjóri TA Sport Travel, sem var staddur í Barcelona á Spáni með tæplega 100 manna hóp þegar ViðskiptaMogginn náði tali af honum. TA Sport Travel býður upp á ferðir til Spánar og Póllands.
Júlíus finnur fyrir aukinni eftirspurn í golfferðir frá fólki sem er nýbyrjað að stunda golf og hefur ekki farið í slíkar ferðir áður.
„Þetta er kannski fólk sem hefur aldrei spilað golf og er kannski komið á miðjan aldur. Allir tala um að þeir séu komnir með miklu meiri tilgang í golfferðum heldur en í hefðbundnum utanlandsferðum. Þá eru þeir að gera eitthvað ákveðið að degi til en geta svo slappað af um kvöldið. Það er gaman að því,“ bætir Júlíus við.
Nánar er fjallað um golfferðir Íslendinga í Morgunblaðinu í dag.