Kvartanir vegna tekjusíðunnar hjá Persónuvernd

Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar.
Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Alls höfðu níu erindi borist til Persónuverndar vegna vefsíðunnar tekjur.is sem opnaði á föstudag. Þetta segir Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, í samtali við mbl.is. Vefsíðan veitir gegn greiðslu aðgang að upplýsingum um tekjur allra einstaklinga á árinu 2016 samkvæmt gögnum ríkisskattstjóra.

„Við tókum stöðuna um miðjan dag í gær. Þá voru níu erindi búin að berast og þar af ein formleg kvörtun. Þar á meðal voru kröfur um lokun vefsíðunnar og annað slíkt,“ segir Helga.

Stangast líklega ekki á við lög

„Ef landslög kveða á um að eitthvað sé heimilt þá er það væntanlega heimilt. En það þarf líka að skoða hvort það sé alveg skýrt hver hafi þessa heimild,“ segir Helga en í tekjuskattslögum segir m.a.: „Heimil er opinber birting á þeim upplýsingum um álagða skatta, sem fram koma í skattskrá, svo og útgáfa þeirra upplýsinga í heild eða að hluta.“ Þá segir einnig inni á tekjur.is að stjórnvöldum sé heimilt að samþykkja að upplýsingum um tekjur sé miðlað til annarra til að stuðla að efnahagslegri velsæld ríkisins. Það virðist því sem svo að starfsemi vefsíðunnar stangist ekki á við lög.

Helga nefnir einnig að ákvæðið hafi komið inn í tekjuskattslögin árið 1984, þ.e. fyrir tíma internetsins, og hafi haldist óbreytt þegar ný tekjuskattslög voru sett 2003. Aðstæður og umhverfi fyrir miðlun upplýsinga hafi því verið með allt öðrum hætti þegar ákvæðið kom fyrst í lög. Þá þurfi einnig að máta þetta ákvæði við kröfur nýrra persónuverndarlaga.

Annað fyrirkomulag í Noregi

Helga bendir á að í Noregi hafi um tíma sá háttur verið á hafður að einstaklingar gátu flett öðrum einstaklingum upp með sambærilegum hætti og nú er hægt á vefsíðunni. „Það fyrirkomulag sætti mikilli gagnrýni og leiddi til þess að ákveðið var þar að formgera þessi mál þannig að vefsíðu er nú haldið úti á vegum norskra stjórnvalda með þessum skattaupplýsingum. Þar er áfram hægt að fletta fólki upp, en á því er rekjanleiki, það sem sagt sést hver hefur flett manni upp í leit að skattgreiðslum.“

Upplýsingar um laun einstaklinga hafa um árabil verið birt í öðrum fjölmiðlum, t.a.m. Tekjublaði Frjálsrar verslunar og DV. Helga segir starfsemi tekjur.is vera ólíka að því leyti að vefsíðan vinnur sínar upplýsingar upp úr skattskrá, að því er virðist, en hinir miðlarnir hafa unnið upp úr álagningarskrá.

Þá nefnir Helga að hér vegist á tvö sjónarmið, annars vegar friðhelgi einkalífs og hins vegar tjáningarfrelsið. Persónuvernd hafi ekki vald til þess að skera úr um hvort beri hærra og þess vegna hafi Persónuvernd á föstudag vísað tveimur kvörtunarmálum frá sem vörðuðu birtingu launaupplýsinga í fjölmiðlum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK