Talsvert fleiri íbúðir eru í byggingu á höfuðborgarsvæðinu nú en fyrr á þessu ári. Munar þar mestu um íbúðir á fyrstu byggingarstigum. 92% af heildarfjölda íbúða í byggingu eru í fjölbýli, en enn er þó byggt of lítið af litlum íbúðum miðað við eftirspurn markaðarins. Samtals eru 4.845 íbúðir í byggingu á svæðinu í dag og er áætlað að á þessu ári komi samtals 2.000 íbúðir á markað. Á næsta ári má gera ráð fyrir að þær verði 2.200 og árið 2020 fari þær upp í allt að 2.600 íbúðir. Þetta kom fram í máli Ingólfs Benders, aðalhagfræðings Samtaka iðnaðarins, á fundi Félags viðskipta- og hagfræðinga í dag.
Samtök iðnaðarins framkvæma talningu á íbúðum í byggingu tvisvar á ári, í mars og í september. Samkvæmt septembertalningunni eru íbúðir í byggingu á höfuðborgarsvæðinu nú 18% fleiri en í mars. Eru þær 4.845, en voru samtals 4.093 í mars. „Það er meiri vöxtur nú en við höfum séð í þessari uppsveiflu,“ sagði Ingólfur á fundinum og bætti við að um væri að ræða jákvæð tíðindi, enda hafi vantað íbúðir undanfarin ár.
Lágpunkturinn í framkvæmdum var í september árið 2012, en þá voru 809 íbúðir í byggingu, eða 17% af því sem nú er.
Fjölgunin sem á sér stað núna frá því í mars er aðallega í fjölbýli, en í þeim flokki er 21% aukning frá því fyrir hálfu ári. Hins vegar er 5% samdráttur í fjölda sérbýla sem eru í byggingu. Íbúðir í fjölbýli eru einnig meginþorri þeirra íbúða sem eru í byggingu, samtals 4.466 eða 92%, meðan íbúðir í sérbýli eru í heildina 379 talsins, eða 8%.
Meirihluti fjölgunar íbúða sem nú eru í byggingu er á fyrstu byggingarstigum. Það þýðir í raun að stóri massinn sem er að bætast við kemur ekki alveg strax í sölu, heldur færist það 1-2 ár fram í tímann.
Helmingur þeirra íbúða sem eru í byggingu er í Reykjavík, fjórðungur í Kópavogi, um 13% í Garðabæ og minna í Mosfellsbæ og aðeins lítill hluti í Hafnarfirði og á Seltjarnarnesi. Hlutfallslega eru hins vegar flestar íbúðir í byggingu í Mosfellsbæ, eða um 15%, því næst Garðabæ með 12% og svo í Kópavogi með 9%. Í Reykjavík er fjöldi íbúða í byggingu sem hlutfall af heildafjölda íbúða rúmlega 4%.
Miðað við þessar tölur segir Ingólfur að fullbúnar íbúðir verði 2,4% á þessu ári, en til samanburðar voru þær 1,5% árið á undan. Það þýðir að á þessu ári muni koma samtals rúmlega 2.000 íbúðir á markað, en í fyrra voru þær um 1.300. Segir hann þá tölu hafa verið langt undir eftirspurnarþörf.
Á næsta ári gerir hann ráð fyrir því að fullbúnar íbúðir sem komi á markaðinn á höfuðborgarsvæðinu verði rúmlega 2.200 og er það um 200 íbúðum fleiri en í marsspánni. Þá er gert ráð fyrir rúmlega 2.600 íbúðum á markað árið 2020, samanborið við tæplega 2.500 í fyrri spá. Samtals spá Samtök iðnaðarins því að 7.005 íbúðir verði fullbúnar á árunum 2018-2020.
Til að setja þennan fjölda í samhengi þá voru ekki nema 2.000 íbúðir kláraðar í Reykjavík á árunum 2011-2017, en nú næst sú tala í Reykjavík á rúmlega ári.
Sagði Ingólfur að jafnvægi væri komið á markaðinn, sem sæist meðal annars á því að verðþróun á markaðinum væri komin í jafnvægi. Hins vegar væri enn mikil eftirspurnarþörf sem hefði myndast á síðustu árum. Benti hann á að miðað við mannfjöldaspár mætti gera ráð fyrir því að byggja þyrfti 45 þúsund íbúðir á landinu öllu til ársins 2040, þar af 33 þúsund á höfuðborgarsvæðinu. Væri fjöldi íbúða þá kominn upp í samtals 180 þúsund á landinu öllu og 120 þúsund á höfuðborgarsvæðinu.
Á síðasta ári fjölgaði íbúum landsins um 10 þúsund, en nýjum íbúðum fjölgaði um 1.800. Ingólfur segir að það leiði af sér að um sex einstaklingar hafi verið að bítast um hverja íbúð. Árið áður hafi hlutfallið verið fjórir að bítast um hverja íbúð. Til viðbótar hafi svo komið ör vöxtur í fjölda ferðamanna og notkun á íbúðum í útleigu til þeirra. Nú virðist hins vegar markaðurinn farinn að taka við sér og skila út meiri fjölda en meðaltal síðustu áratuga. Það þurfi þó áfram að vinna upp þá umframeftirspurn sem myndaðist frá 2010 til 2017.
Spurður um áhrif aukins fjölda íbúða á markaði á verðþróun segir Ingólfur að í dag sé verðþróunin mun eðlilegri en hún var árin 2016-17 þegar hún hafi stungið launaþróunina af. „Núna er þetta meira að þróast í takt og markaðurinn í betra jafnvægi,“ segir hann.