Stærsti banki Norðurlandanna, Nordea, hefur verið ásakaður um að brjóta gegn reglum um peningaþvætti. Fréttastofa Reuters greinir frá því að ásakanirnar hafi borist sænsku viðskiptaglæpadeildinni frá Hermitage Capital Management í dag.
Nordea hefur staðfest að hann viti af ásökununum, og skoða sænsk stjórnvöld nú hvaða yfirvöld eigi að fara með málið. Formleg rannsókn á ásökununum er ekki hafin.
„Við vinnum náið með viðeigandi yfirvöldum í þeim löndum sem við höfum starfsemi,“ segir í yfirlýsingu frá Nordea. „Í öllum þeim tilfellum sem við verðum vör við grunsamlegar millifærslur gerum við stjórnvöldum viðvart.“
Nordea neitaði að tjá sig um mál einstakra viðskiptavina og sænsku yfirvöldin, sem fengu ásakanirnar á sitt borð, vildu ekki gefa nánari upplýsingar. Þá neitaði Hermitage Capital Management að tjá sig.
Árið 2015 var Nordea gert að greiða 50 milljónir sænskra króna í sekt, meðal annars vegna brota á reglum um peningaþvætti, og var sektin sú hæsta sem hægt var að leggja á stofnanir á þeim tíma. Danske Bank, annar stór banki á Norðurlöndunum, sætir einnig rannsókn vegna gruns um brot á reglum um peningaþvætti sem vaknaði á dögunum.