Íbúðaverð mun hækka um 8,2% að meðaltali á þessu ári, 5,5% á næsta ári og 4,4% árið 2020 samkvæmt nýrri skýrslu Íslandsbanka um íslenska íbúðamarkaðinn. Þá kemur fram að aldrei hafi verið erfiðara fyrir fólk að kaupa sína fyrstu fasteign.
Þá kemur fram í skýrslunni að hlutfall íbúðaverðs og launa hafi verið 10% yfir langtímameðaltali á síðasta ári. Til samanburðar fór þetta hlutfall hæst í 29% yfir meðaltalinu í uppsveiflunni fyrir hrun og var þá talsvert erfiðara að kaupa húsnæði en í dag þegar miðað er við laun.
Hins vegar hefur aldrei verið erfiðara að kaupa fyrstu eign miðað við laun. Skoðaði bankinn hlutfall launa þeirra sem eru á algengum aldri til að kaupa fyrstu eign og verð á smærri eignum. Var hlutfallið um 31% yfir langtímameðaltali á síðasta ári og hefur það aldrei verið meira að sögn greiningardeildar bankans.
Raunverð fasteigna hefur samkvæmt skýrslunni hækkað um 56% frá árinu 2010 og samhliða því hefur eigið fé heimila aukist um 2.051 milljarð, eða um 96%. Á sama tíma nema vaxtagjöld að frádregnum vaxtabótum vegna íbúðalána 575 milljörðum króna eða um 72 milljörðum á ári. Hrein verðmætaaukning heimilanna, að teknu tilliti til verðbóta og vaxtagjalda, nemur því um 1.476 milljörðum króna.
Í greiningunni er einnig skuldsetning heimila skoðuð og kemur þar fram að hún sé mest á Suðurnesjum. Þar sé veðsetningarhlutfallið 46% af fasteignamati, en meðaltalið yfir allt landið sé 30%. Um 77% af heildarskuldum heimila eru verðtryggðar.