Minna álag með styttri vinnuviku

Dagvistunartími barna styttist við styttingu vinnuviku.
Dagvistunartími barna styttist við styttingu vinnuviku. mbl.is/​Hari

Stytting vinnuvikunnar hefur almennt haft jákvæð áhrif á starfsfólk Reykjavíkurborgar og ríkisins, en viðmælendur í skýrslu sem unnin var fyrir BSRB fundu almennt fyrir jákvæðum áhrifum á líkamlega og andlega líðan. Þá gerði stytting vinnuviku starf á vinnustöðum markvissara og dró úr veikindum starfsfólks.

Arnar Þór Jóhannesson, sérfræðingur hjá Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri, fjallaði um niðurstöður rannsóknar á áhrifum tilraunaverkefnis um styttingu vinnuvikunnar án launaskerðingar á 45. þingi BSRB í morgun.

Bæði karl- og kvenkyns viðmælendur töluðu um að stytting vinnuvikunnar hefði auðveldað þeim að samræma vinnu og einkalíf og minnkað álag á heimilinu, og þótti körlum þeir taka meiri þátt og axla meiri ábyrgð á heimilinu. Konum fannst ekki mikil breyting verða á hlutverki sínu gagnvart heimilisstörfum, en upplifðu þó að þær ættu „auðveldara með að gera það sem þær gerðu alltaf,“ líkt og segir í skýrslunni.

Arnar Þór kynnti niðurstöður rannsóknar á áhrifum styttingar vinnuviku.
Arnar Þór kynnti niðurstöður rannsóknar á áhrifum styttingar vinnuviku. Ljósmynd/BSRB

Vistunartími barna styttist og gæðastundir með börnum og fjölskyldu jukust, auk þess sem samskipti við vinnufélaga þóttu betri og létt hefur á heimilum. Mörgum viðmælendum þótti gott að geta skroppið og sinnt erindum, svo sem læknisheimsóknum og klippingum, á vinnutíma án þess að vera með samviskubit eða þurfa að vinna upp tapaðan tíma. Þar af leiðandi fækkaði fjarvistum á vinnutíma, auk þess sem fólk mætti frekar til vinnu nú en áður þrátt fyrir að heilsan væri ekki eins góð og ákjósanlegt væri.

Starfsfólk „ekki bara vélar“

Flestir viðmælendur fundu fyrir aukinni starfsánægju og meiri samheldni á vinnustaðnum, því þeir upplifðu að verið væri að gera eitthvað fyrir þá og hlúa að þeim. „Þetta er ákveðin virðing fyrir manneskjunni. Að við séum ekki bara vélar,“ er meðal þess sem haft er eftir einum viðmælanda í skýrslunni.

Arnar sagði fólk nota þann tíma sem það fær með styttingunni á mismunandi hátt, en flestir telja miklu muna um styttinguna, og jafnvel meiru en þeir bjuggust við.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK