Þær starfsmannaleigur sem eru með allt sitt í lagi gætu á næstunni fengið vottun hjá Samtökum atvinnulífsins og Alþýðusambandinu.
Þetta kom fram í kvöldfréttum RÚV.
Til þess að hljóta vottunina þyrftu fyrirtækin að sýna fram á að starfsmenn sínir njóti réttra kjara. Samráðsnefnd samtakanna tveggja myndi veita vottunina.
Á meðal skilyrða sem starfsmannaleigurnar þyrftu að uppfylla væri að hafa starfað í að minnsta kosti eitt ár og að hafa ekki brotið lög eða kjarasamninga í þrjú ár.
Einnig þyrftu þær að afhenda yfirlit yfir fjölda starfsmanna, ráðningarsamninga og fleira. Vottunarkerfið er hluti af samkomulagi sem SA og ASÍ gerðu í vor.