WOW air mun draga úr flugi til Miðvesturríkja Bandaríkjanna frá næstu áramótum. Flugi til St. Louis verður hætt 7. janúar og ekki stendur til að borgirnar Cincinnati og Cleveland verði á sumaráætlun flugfélagsins næsta sumar. Frá þessu er greint á vef USA Today þar sem haft er eftir Svanhvíti Friðriksdóttur, upplýsingafulltrúa WOW air, að ekki hafi verið næg spurn eftir flugi til St. Louis.
„Því miður verður að segjast að þegar á heildina litið var St. Louis vonbrigði fyrir WOW air í sumar, margir þættir spiluðu þar saman og við náðum ekki settum markmiðum, samanborið við aðra markaði á okkar sviði,“ segir Svanhvít í samtali við USA Today.
WOW air hóf flug til borgarinnar í vor og vakti það töluverða athygli, sérstaklega í ljósi þess að þetta var í fyrsta sinn í 15 ár sem íbúum borgarinnar bauðst að fljúga beint til Evrópu. Flugmálayfirvöld og viðskiptaráð St. Louis tóku vel í samgöngubótina og til stóð að veita WOW air styrki upp á allt að 800 þúsund dollara, eða sem nemur um 92 milljónum króna, ef flugleiðin yrði hluti af flugáætlun WOW air í að minnsta kosti tvö ár. Þetta er meðal þess sem kom fram í umfjöllun Túrista.is sem hefur fjallað um samdrátt WOW air á Bandaríkjamarkaði.
Flugmálayfirvöl í St. Louis hafa sent frá sér tilkynningu vegna ákvörðunar WOW air þar sem þau lýsa yfir vonbrigðum með að flugi til borgarinn verði hætt þar sem þau segja að spurnin eftir fluginu hafi verið mikil meðal borgarbúa.
WOW air hefur hins vegar ekki alveg sagt skilið við Miðvesturríkin en flugfélagið mun áfram fljúga til Chicago og Detroit. Þá tilkynnti félagið í gær að flug hefjist að nýju til Tel Aviv í Ísrael næsta sumar.