Breskur dómari snupraði kaupsýslumanninn Robert Tchenguiz í gær og sagði kaupsýslumanninn skulda fólki og fyrirtækjum afsökunarbeiðni fyrir að málshöfðun á hendur þeim. Meðal annars fyrrverandi lögmanni Kaupþings, Jóhannesi Rúnari Jóhannssyni. Tchenguiz ætlar ekki að biðjast afsökunar.
Dómarinn, Robin Knowles, sagði í réttarsalnum í gær að það sé skoðun réttarins að Robert Tchenguiz og aðrir þeir sem tóku þátt í málshöfðuninni skuldi endurskoðunarfyrirtækinu Grant Thornton afsökunarbeiðni. Sem og öðrum sem málshöfðunin laut að en fallið var frá fleiri milljóna punda skaðabótakröfu gagnvart Grant Thornton á mánudag.
Tchenguiz sendi frá sér yfirlýsingu í kjölfarið þar sem hann sagði að það hvarflaði ekki að sér að biðjast afsökunar. Að sögn dómarans voru ásakanir hans á hendur Grant Thornton mjög alvarlegar, eins gagnvart tveimur eigendum fyrirtækisins; Stephen Akers og Hossein Hamedani auk Jóhannesar Rúnars sem var lögmaður Kaupþings á sínum tíma.
Í síðustu viku sökuðu lögmenn Tchenguiz viðkomandi um samsæri um að fá bresku efnahagsbrotadeildina, Serious Fraud Office (SFO), til að hefja rannsókn á viðskipum hans við Kaupþing.
Robert Tchenguiz var handtekinn ásamt bróður sínum, Vincent, af bresku lögreglunni árið 2011 þegar SFO rannsakaði hrun Kaupþings. Á mánudag féll hann frá kröfum sínum á hendur Grant Thornton, eigendum og Jóhannesi Rúnari, aðeins nokkrum klukkustundum áður en hann átti að bera vitni í málinu.