„Það kom veikingarhrina fyrr í mánuðinum. Svo komu nokkrir rólegri dagar í kjölfarið, en nú er krónan aftur að veikjast,“ segir Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, í samtali í ViðskiptaMogganum í dag, en gagnvart evru hefur krónan veikst um 11% frá því er best lét í sumar.
Jón Bjarki segir að um talsverða lækkun sé að ræða, og nokkrir samverkandi þættir séu að verki. Hann segir að grunnstoðir krónunnar séu ágætar og sterkari en þær voru áður, eins og hann orðar það.
„Við erum með viðskiptaafgang, hrein staða við útlönd er orðin jákvæð og Seðlabankinn hefur verið með myndarlegan gjaldeyrisforða, svo nokkuð sé nefnt. Síðast en ekki síst þá er traust á landinu miklu meira en það var fyrr á áratugnum, og jafnvel fyrir hrun.“
Jón Bjarki segir að flæðið endurspegli þó ekki þessa sterku grunnþætti, heldur séu það frekar vaxandi áhyggjur af því hvað taki við þegar hinn hraði vöxtur ferðaþjónustunnar sé á enda og við taki fullorðinsárin í þeirri grein.
Í umfjöllun um gengisþróunina í ViðskiptaMogganum í dag segir Jón Bjarki að við bætist að verið sé að fjárfesta fyrir töluvert háar fjárhæðir út úr landinu, en þar séu helst lífeyrissjóðir á ferðinni sem hafa viljað auka hlut erlendra eigna sinna.