Seðlabanki Íslands greip inn í veikingu krónunnar með kaupum á krónum á gjaldeyrismarkaði laust eftir kl. 15 í dag. Þetta staðfestir Stefán Jóhann Stefánsson, upplýsingafulltrúi Seðlabankans, í samtali við mbl.is.
Fréttablaðið greindi fyrst frá og segist hafa heimildir fyrir því að bankinn hafi selt 9 milljónir evra og þar með keypt krónur fyrir um 1,2 milljarða. Það væri sama upphæð evra og Seðlabankinn seldi er hann greip inn í stöðu mála á gjaldeyrismarkaði í septembermánuði.
Frá upphæð inngripanna í þetta sinn mun Seðlabankinn þó ekki greina fyrr en að tveimur dögum liðnum, en þetta er í annað sinn í haust sem bankinn grípur til þess ráðs að kaupa íslenskar krónur til sporna við veikingu krónunnar.
Inngrip Seðlabankans varð til þess að veiking krónunnar í dag gekk að miklu leyti til baka, en þó nemur hækkun gengisvísitölunnar tæpu hálfu prósenti í dag sem þýðir að krónan hefur gefið eftir gegn helstu viðskiptamiðlum.
Áður en Seðlabankinn greip inn í var almennt gengi Bandaríkjadals orðið 120,4 krónur og evru 138 krónur. Eftir inngripið fór gengi Bandaríkjadals niður í 118,5 og evru niður í 136,1.