34% aukning í fiskeldi

Rekstrartekjur í fiskeldi jukust um 4,9 milljarða milli ára.
Rekstrartekjur í fiskeldi jukust um 4,9 milljarða milli ára. mbl.is/Helgi Bjarnason

Velta í viðskiptahagkerfinu var rúmlega 4.000 milljarðar króna árið 2017 og jókst um 2,6% milli ára, en hún var 3.900 milljarðar árið 2016 að því er fram kemur í frétt á vef Hagstofunnar. Eigið fé jókst um 6% frá 2016 og var í lok árs 2017 tæplega 3.000 milljarðar. Eiginfjárhlutfall var rúmlega 42% í lok árs og jókst lítillega milli ára.

Allur fyrirtækjarekstur á Íslandi, utan lyfjaframleiðslu, fjármála- og vátryggingarstarfsemi og opinberrar starfsemi telst til viðskiptahagkerfisins og eru rekstrar- og efnahagsreikningar unnir úr skattframtölum fyrirtækja. Fyrir árið 2017 liggja þar að baki tæplega 39 þúsund framtöl, en hjá þessum 39 þúsund fyrirtækjum eru 124 þúsund launþegar í 444 atvinnugreinum skv. ÍSAT-atvinnugreinaflokkun Hagstofunnar.

Helstu breytingar milli ára þegar litið er til hækkunar rekstrartekna eru í fiskeldi, þar sem rekstrartekjur jukust um 4,9 milljarða (34%), mannvirkjagerð 6,2 milljarðar (33%) og starfsemi á sviði upplýsingaþjónustu 3,7 milljarðar (27%). 

Meðal atvinnugreina þar sem rekstrartekjur lækkuðu hvað mest voru kvikmyndaframleiðsla, 4,2 milljarðar (-18%) og sjávarútvegur þar sem rekstrartekjur lækkuðu um 44 milljarða (-13%).

Mikill vöxtur hefur verið í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð og jukust rekstrartekjur um 19% milli áranna  2016 og 2017 og hækkuðu þær úr 299 milljörðum í 356 milljarða. Mikill vöxtur var einnig árið áður og hafa rekstrartekjur í atvinnugreininni vaxið um rúmlega 50% frá 2015. Launakostnaður í greininni hækkaði um 19% á þessum tíma og virðist því haldast í hendur við tekjuaukningu.

Launþegum innan byggingageirans  hefur fjölgað mikið frá 2015, eftir að hafa verið nokkuð stöðugur frá árinu 2009. Nú starfa 12.000 launþegar í greininni, sem eru um 36% fleiri en 2015 þegar tæplega 9 þúsund störfuðu í greininni. Ekki hafa fleiri starfað við byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð frá árinu 2008. Eiginfjárhlutfall hækkaði um 2,3 prósentustig milli ára og er 25%, en eigið fé hækkaði um tæplega 30%.

Rekstrartekjur fyrirtækja í fiskeldi jukust um 34% en þær jukust einnig mikið árið áður og hafa rúmlega tvöfaldast frá árinu 2015. Viðsnúningur hefur því orðið í greininni, samkvæmt frétt Hagstofunnar, en hagnaður fyrir fjármagnsliði jókst um rúmlega 2,6 milljarða frá árinu áður og er nú 900 milljónir en tapið nam 1,7 milljörðum árið áður. Eigið fé hefur því aukist um 28% frá fyrra ári, er nú 22 milljarðar og eiginfjárhlutfall yfir 50%.

Rekstrartekjur fyrirtækja í sjávarútvegi lækkuðu hins vegar á milli áranna 2016 og 2017. Á móti kemur að rekstrarkostnaður lækkaði einnig og þá voru fjármagnsliðir til lækkunar. Hagnaður samkvæmt ársreikningi lækkaði því á milli ára um 12,2 milljarða (25%). Þá hækkuðu langtímaskuldir sjávarútvegsfyrirtækja um 5,3% og eigið fé jókst um 4,7%.

Vöxtur var áfram í ferðaþjónustu, en þó ekki af sama krafti og undanfarin ár. Þannig jukust rekstrartekjur um 6% milli ára, sem er helmingi minna en árið áður, og voru þær 590 milljarðar árið 2017. Launþegum í greininni hélt einnig áfram að fjölga og voru þeir rúmlega 26 þúsund og er það aukning um 8% milli ára. Hagnaður fyrir fjármagnsliði minnkaði um 38%, fór úr 45 milljörðum í 28 milljarða. Munaði þar mestu um 19% hækkun launakostnaðar, en aðrir kostnaðarliðir hækkuðu um 7% til 9%.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka