848 milljóna rekstrarhagnaður Heimavalla

Heimavellir Lágmúla
Heimavellir Lágmúla mbl/Arnþór Birkisson

Leigufélagið Heimavellir hagnaðist um 100 milljónir á þriðja ársfjórðungi, en á sama tíma í fyrra hagnaðist félagið um 757 milljónir. Skýrir söluhagnaður eigna í fyrra þennan mun. Rekstrarniðurstaða félagsins fyrir matsbreytingu og fjármagnsliði var hins vegar talsvert betri í ár en á sama tíma í fyrra, fór úr 446 milljónum í 598 milljónir og er það besti árangur félagsins á einum ársfjórðungi. Eftir matsbreytingu er rekstrarhagnaðurinn 848 milljónir á þriðja ársfjórðungi.

Það sem af er ári hefur félagið tapað 36 milljónum og hefur rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu og fjármagnsliði verið 1,65 milljarðar. Eftir matsbreytingar nemur rekstarhagnaðurinn 2,02 milljörðum. Í fyrra var heildarhagnaður eftir níu mánuði 1,8 milljarðar og rekstarhagnaður fyrir matsbreytingu 1,12 milljarðar. Rekstrarhagnaður eftir matsbreytingar var hins vegar 3,76 milljarðar í fyrra eftir níu mánuði.

Í tilkynningu til Kauphallarinnar er haft eftir Guðbrandi Sigurðssyni, forstjóra félagsins, að hann sé mjög ánægður með hvernig félaginu miði. Segir hann rekstrarniðurstöðu þriðja ársfjórðungs þá bestu sem félagið hafi séð og reksturinn sé í samræmi við áætlanir.

Á fyrstu níu mánuðum ársins hafa eignir fyrir 3,19 milljarða verið seldar og var söluhagnaður af þeim 222 milljónir, eða 7% af matsverði. Segir hann að fram undan sé endurfjármögnun þar sem horft sé til skuldabréfaútboðs.

Heildareignir Heimavalla námu 58,4 milljörðum í lok september. Þar af voru fjárfestingareignir í byggingu upp á rúmlega einn milljarð. Eigið fé félagsins nam 18,7 milljörðum, en heildarskuldir voru 39,73 milljarðar.

Fram kemur í tilkynningunni að félagið áætli að tekjur ársins í heild muni vera 3.697 milljónir og að EBITDA félagsins sé áætluð 60% af tekjum, eða 2.218 milljónir.

Áætlað er að tekjur á næsta ári aukist og verði 3.880 milljónir og að EBITDA aukist og verði á bilinu 63,5-64,8%. Árið 2020 er svo áætlað að EBITDA verði komin í 66,6-67,8%.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK