Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Almannaróms, miðstöðvar um máltækni. Að Almannarómi standa háskóla- og rannsóknastofnanir, fyrirtæki og félagasamtök.
Fram kemur í tilkynningu að meginhlutverk Almannaróms sé að tryggja að íslenska standi jafnfætis öðrum tungumálum í hinu stafræna umhverfi og mun framkvæmdastjóri meðal annars bera ábyrgð á gerð samninga við stærstu tæknifyrirtæki heims og úthlutun fjármagns til rannsókna og innviðauppbyggingar á sviði máltækni.
Þá segir að Jóhanna Vigdís hafi undanfarin ár starfað sem framkvæmdastjóri atvinnu- og alþjóðatengsla hjá Háskólanum í Reykjavík og staðið fyrir uppbyggingu atvinnulífstengsla HR. Áður var hún forstöðumaður markaðssviðs HR. Jóhanna Vigdís hefur jafnframt gegnt stjórnendastöðum við Listahátíð í Reykjavík, hjá Straumi fjárfestingarbanka, Deloitte og Borgarleikhúsinu.
Jóhanna Vigdís lauk AMP-gráðu hjá IESE Business School í Barcelona árið 2015, MBA-námi frá HR 2005 og meistaraprófi frá Háskólanum í Edinborg árið 2003. Jóhanna Vigdís útskrifaðist með BA-gráðu í bókmenntum frá Háskóla Íslands árið 1998.
Jóhanna Vigdís er gift Riaan Dreyer og saman eiga þau fjögur börn.