Hlutabréfaverð í Eimskipafélagi Íslands lækkaði um tæplega 13% í viðskiptum í Kauphöllinni í dag. Fyrirtækið hafði gefið frá sér uppfærða afkomuspá á föstudaginn, en þetta var þriðja uppfærslan á þessu ári og hafa þær allar gefið til kynna verri afkomu en áætlað hafði verið.
Var afkoma félagsins nú lækkuð um 15%, úr 57-63 milljón evra rekstrarhagnaði í 49-53 milljóna rekstrarhagnað.
Hafa bréf félagsins nú lækkað um 36% á einu ári, en hæst var gengið 16. nóvember þegar það var 279,5 krónur. Í dag endaði gengið hins vegar í 180 krónum.
Við lokun markaða á föstudaginn var gengi félagsins 206 krónur, en með lækkuninni í dag hefur markaðsvirði félagsins lækkað um 4,9 milljarða.