Aðildarfyrirtæki Samtaka atvinnulífsins telja að meðaltali að svigrúm til launahækkana árið 2019 sé 1,9%, en 43% forsvarsmanna fyrirtækjanna töldu svigrúm til þess að hækka laun hreint ekki til staðar.
Ferðaþjónustufyrirtæki telja svigrúmið að meðaltali vera 1,2%, fyrirtæki í útflutningi vöru og þjónustu 1,7% en önnur fyrirtæki 2,1%. Þetta eru niðurstöður nýrrar könnunar SA á meðal aðildarfyrirtækja sinna. Könnunin var gerð í ágúst, 523 fyrirtæki tóku þátt og svarhlutfallið var 31%.
Niðurstöðurnar eru kynntar á fundi SA í Hörpu, sem hófst kl. 8:30 í morgun. Af niðurstöðunum má sjá að ferðaþjónustufyrirtæki telja sig síst í aðstöðu til að hækka laun, en 65% þeirra ferðaþjónustufyrirtækja sem svöruðu könnuninni töldu alls ekkert svigrúm til launahækkana á næsta ári.
„Staðan er svipuð í öðrum greinum en rúmlega helmingur útflutningsfyrirtækja taldi ekkert svigrúm til launahækkana og 36% annarra fyrirtækja. Að meðaltali telja 43% forsvarsmanna ekkert svigrúm til launahækkana 2019,“ að því er kemur fram í fréttatilkynningu frá SA.
Samtökin segja niðurstöðurnar ekki koma á óvart í ljósi launaþróunar á tímabili gildandi kjarasamninga, eða frá upphafi ársins 2015. Á þeim tíma hafi regluleg laun hækkað um 33% samkvæmt Hagstofunni, lágmarkslaun kjarasamninga um 40% og kaupmáttur launa aukist um 24%.
„Þessar tölur eru mjög háar samanborið við nágrannalönd okkar en vegna hagstæðra ytri skilyrða, margföldunar erlendra ferðamanna, styrkingar gengis krónunnar, niðurfellingar tolla og vörugjalda og hagræðingar fyrirtækja, hélst verðbólga í skefjum. Frekari launahækkanir verða ekki án neikvæðra afleiðinga en laun á Íslandi eru orðin mjög há miðað við þau lönd sem hæst laun greiða í heiminum, s.s. Noreg, Danmörku og Svíþjóð,“ segir í tilkynningu samtakanna.