Vel hugsað um starfsfólkið

Vinnumarkaður hefur vaxið ört á undanförnum árum.
Vinnumarkaður hefur vaxið ört á undanförnum árum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Umfjöllun um aðbúnað erlends starfsfólks sem kemur hingað í gegnum starfsmannaleigur gefur ekki rétta mynd af markaðnum. Þvert á móti er um undantekningar að ræða á íslenskum vinnumarkaði.

Þetta segir Arthúr Vilhelm Jóhannesson, framkvæmdastjóri Elju starfsmannaþjónustu, sem kveðst fagna umræðu um þessi mál. Á hinn bóginn vilji hann gera athugasemd við að allar starfsmannaleigur séu settar undir einn hatt í þessu efni.

Þau atriði sem gerðar voru athugasemdir við í umfjöllun fréttaskýringarþáttarins Kveiks á RÚV fyrr í haust eigi á engan hátt við starfsemi Elju. Um sé að ræða stærstu starfsmannaleigu landsins sem hafi haft milligöngu um ráðningu á um 2.000 starfsmönnum frá stofnun hennar haustið 2015.

Víða væri pottur brotinn

Ýmislegt aðfinnsluvert var dregið fram í áðurnefndum sjónvarpsþætti. Dæmi voru tekin af erlendum starfsmönnum sem bjuggu við slæman aðbúnað og greiddu hátt hlutfall lágra launa í gistingu og fyrir afnot af bíl, án þess að hafa um það nokkurt val. Töldu viðmælendur sig svikna. Þeir hefðu verið blekktir til Íslands.

Jafnframt var rætt við einstaklinga sem héldu því fram að brotið hefði verið á ýmsum rétti þeirra.

Arthúr Vilhelm segir slík vinnubrögð ekki liðin hjá Elju.

Ráðningarferlið sé þannig að fyrst komi beiðni frá fyrirtæki sem þarf starfsfólk. Því næst setjist fulltrúar Elju niður með fulltrúum notendafyrirtækisins og fari yfir fjölda starfsmanna, í hversu langan tíma á að ráða þá, hver vinnustaðurinn er og vinnutími. Síðan er leitað að starfskrafti fyrir umrædda stöðu.

„Við auglýsum ekki sjálf á Facebook, eða eitthvað slíkt, heldur erum við í samskiptum við ráðningarstofur sem miðla starfsfólki til Noregs, Þýskalands og annarra landa. Síðan gerum við mjög ítarlegt atvinnutilboð, þar sem tilgreind eru laun fyrir dagvinnu, yfirvinnu, greiðslur í stéttarfélag og hvað er útborgað eftir að búið er að greiða skatta og skyldur til íslensks samfélags. Síðan senda ráðningarstofurnar umsóknir til okkar,“ segir Arthúr Vilhelm.

Arthúr Vilhelm Jóhannesson, framkvæmdastjóri Elju starfsmannaþjónustu.
Arthúr Vilhelm Jóhannesson, framkvæmdastjóri Elju starfsmannaþjónustu. Ljósmynd/Aðsend

Fara yfir starfskjörin

Því næst kynni ráðningarfulltrúar Elju viðkomandi starfskröftum starfskjörin. Það sé gert jafnvel þótt ráðningarstofan erlendis eigi líka að kynna þeim málið.

„Við förum í gegnum þessa hluti með umsækjendum. Við öflum svo allra nauðsynlegra gagna sem þarf. Við fáum til dæmis sakavottorð frá öllum og afrit af þeim gögnum sem óskað er, svo sem ökuskírteini og varðandi námsferil.

Þegar við erum komin með gögnin bókum við flug fyrir starfsmann og sækjum hann við komuna. Það er keppikefli að blekkja engan til að koma til Íslands með gylliboðum því óánægður starfsmaður uppfyllir síður þær kröfur sem fyrirtækin gera til okkar. Flestir koma hingað til að bæta lífskjör sín, breyta til og leita að nýjum áskorunum. Það er okkur í hag, starfsmönnunum og fyrirtækjunum sem leita til okkar að allir séu sáttir við hlutskipti sitt. Ef starfsmaðurinn kýs að leigja af okkur húsnæði bjóðum við honum það, þótt það sé ekki skilyrði fyrir vinnu heldur viðbótarþjónusta. Svo kemur hann hingað á skrifstofuna í skjalagerð,“ segir Arthúr Vilhelm.

Hann áætlar að 75-80% umsækjenda kjósi að leigja húsnæði af Elju. Fyrirtækið sé með tvö fjölbýlishús á Ásbrú og húsnæði í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði.

Húsaleigan sé 55 þúsund á mánuði á Ásbrú og 75 þúsund á höfuðborgarsvæðinu. Að jafnaði séu tveir í herbergi nema annars sé óskað. Vel sé búið að starfsfólkinu.

Eins og á gistiheimilum

„Það má segja um allt þetta húsnæði að það sé eins og gistiheimili. Þar bíða starfsmanna uppábúin rúm. Þeir þurfa því aðeins að mæta. Innifalið er húsbúnaður, internet, hiti, rafmagn, öll eldhúsáhöld, þvottavél og þurrkari. Það er allt til staðar.“

Spurður hvort þetta sé sanngjörn leiga kveðst Arthúr Vilhelm skilja ef einhverjir telji þetta háa leigu, sérstaklega þegar fólk kemur frá löndum þar sem þessi kostnaður er hlutfallslega mun lægri.

Staðreyndin sé hins vegar sú að Elja stjórni ekki leigumarkaðnum. Gjöldin séu hér umfram tekjur þar sem nýtingin á húsnæðinu sem Elja greiðir fyrir er mjög misjöfn eftir árstíma. Stundum standi herbergi auð. Fyrirtækið leigi húsnæði af leigufélögum. Tekjurnar verði að standa straum af því. Elja hafi fengið á sig hækkanir en ekki velt þeim yfir í leiguna. Hjá Elju sé hvorki kveðið á um lágmarks leigutíma né óskað sérstakrar tryggingar og starfsmönnum sé alltaf frjálst að segja upp húsnæðinu með mánaðar fyrirvara. Slík uppsögn hafi engin áhrif á ráðningarsambandið.

Spurður um gæði húsnæðisins segir Arthúr Vilhelm að um sé að ræða hefðbundið íbúðarhúsnæði.

Sóttir í sumum tilvikum

Spurður um samgöngumál segir Arthúr Vilhelm að Elja kynni það alltaf í sínum atvinnutilboðum að launþegi beri sjálfur ábyrgð á að koma sér til og frá vinnu. Í sumum tilfellum séu starfsmenn sóttir að morgni og þeim ekið heim í lok dags, til dæmis ef vinnutími hefst áður en Strætó fer að ganga. Elja bjóðist til að hafa milligöngu um að kaupa strætókort hafi viðkomandi áhuga. Elja bjóði ekki upp á þann valkost að fyrra bragði að leigja starfsmönnum bifreið til sameiginlegra afnota.

Arthúr Vilhelm segir fyrirtæki eins og Elju standa rétt að hlutunum. Þau ráði ekki hingað til lands menn á fölskum forsendum. Þá séu þau ekki að draga hin og þessi gjöld af launum starfsmanna, eða að hýsa þá í óviðunandi húsnæði.

Fram kom í áðurnefndum þætti Kveiks að dæmi séu um að erlendir starfsmenn starfsmannaleiga starfi við hættulegar aðstæður. Þá væri misbrestur á því að starfsfólkið hefði aðgang að salernisaðstöðu.

Arthúr Vilhelm segir slíkt ekki eiga við starfsmenn á vegum Elju.

„Almennt eru fyrirtækin sem eru í viðskiptum hjá okkur flott fyrirtæki sem er annt um sína ímynd og sína starfsmenn. Það kemur skýrt fram í okkar ráðningarsamningum milli starfsmanna og notendafyrirtækis að starfsmenn eiga að njóta nákvæmlega sömu aðstöðu og aðrir. Þá m.a. varðandi aðgang að mötuneyti og öllu slíku, áður en við hefjum samskipti. Starfsmaður úr starfsmannadeild okkar keyrir starfsmenn til vinnu fyrsta daginn og er í samskiptum við verkstjóra á staðnum. Þá er farið í gegnum hefðbundin mál og útskýrt fyrir viðkomandi hvernig matarmál eru á vinnustað, hver kostnaðurinn er af því og svo framvegis. Starfsmaðurinn tekur svo upplýsta ákvörðun um hvort hann kjósi að taka þátt í matarbökkum, eða því fyrirkomulagi sem er við lýði.“

Bjóðast bónusgreiðslur

Að sama skapi bjóðist erlendu starfsfólki sömu kjör og íslensku. Greitt sé fyrir yfirvinnu samkvæmt kjarasamningum. Allir ráðningarsamningar séu yfirfarnir af Vinnumálastofnun, sem geri m.a. reglulega úttektir á tímaskýrslum, og Elja hafi fengið það staðfest frá stéttarfélögum að engin mál séu til skoðunar sem varða starfsmenn fyrirtækisins og hagsmuni þeirra. Mikið sé lagt upp úr góðu samstarfi við alla hagsmunaaðila. Það stuðli enda að starfsánægju starfsmanna og ánægðum viðskiptavinum.

„Við óskum eftir því og spyrjum, þegar við hefjum samningaviðræður, hvort einhverjir sérkjarasamningar séu í gangi, sem eru þá ekki sjáanlegir á heimasíðum stéttarfélaga. Þá upplýsa fyrirtækin okkur um það. Margir starfsmenn hjá okkur fá allskyns bónusa, til dæmis fyrir mætingu og afköst. Við höfum til dæmis verið með sölumenn hjá bílaleigum á Keflavíkurflugvelli og þar er verið að greiða bónusa,“ segir Arthúr.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK