Formlegt söluferli á dótturfélagi Icelandair, Icelandair Hotels, er hafið, samkvæmt tilkynningu Icelandair Group til Kauphallar. Ákvörðunin um að selja félagið og fasteignir þær sem tilheyra hótelrekstrinum, var upphaflega tekin í maí síðastliðnum, en síðan þá hefur fjöldi aðila sýnt fyrirtækinu áhuga.
Bogi Nils Bogason, starfandi forstjóri Icelandair, segir í samtali við Morgunblaðið að margar fyrirspurnir hafi borist eftir upphaflega tilkynningu um söluna. „Það hafa margir haft samband, og mest aðilar utan úr heimi. Ég geri ráð fyrir að íslenskir aðilar muni væntanlega líka óska eftir gögnum.“
Bogi segir að eignirnar sem um ræðir séu góðar. „Við höfum mikla trú á ferðaþjónustunni, þó að umræðan hafi verið heldur neikvæð upp á síðkastið hér á landi. En af áhuganum að dæma þá sjá útlendingar meiri tækifæri í fyrirtækinu en innlendir aðilar. Við erum búin að byggja hér upp heils árs ferðaþjónustuland, og það er ekki öllum löndum sem hefur tekist það. Flugtengingar eru gríðarlega miklar, við Evrópu og Ameríku, og bráðum Asíu. Þannig að tækifærin eru svo sannarlega til staðar til að láta fyrirtækið vaxa og dafna, og það er það sem útlendingarnir sjá.“
Eru þetta atriðin sem helst er tæpt á í fjárfestakynningunni sem kynnt verður hugsanlegum kaupendum á næstunni?
„Já, ekki hvað síst, en svo eru þetta bara frábærar eignir. Þetta hótelfélag okkar hefur staðið að glæsilegri uppbyggingu á nýjum hótelum á mjög góðum stöðum hér í Reykjavík og úti á landi.“
Stefnt er að því að ljúka sölunni á fyrsta fjórðungi næsta árs, 2019. „Við segjum samt líka að við viljum frekar vanda okkur en flýta okkur,“ segir Bogi Nils.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.