„Vaxtahækkanir eru aldrei góðar fréttir fyrir neytendur,“ segir Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, um vaxtahækkun Seðlabanka Íslands. Bankinn tilkynnti í morgun um 0,25 prósentustiga vaxtahækkun, en meginvextir bankans hækkuðu síðast á haustmánuðum 2015 og höfðu verið óbreyttir frá því í júlí í fyrra.
Breki segir að íslenskt heimili skuldi að meðaltali um tólf milljónir í húsnæðislán. „Meginvextir Seðlabankans eru ákveðnir grunnvextir í samfélaginu þannig að það má búast við því að þetta smitist inn í breytilega vexti lána. Það mun á endanum greiðast úr vösum neytenda.“
Á hinn bóginn megi ekki gleyma því að aðgerðunum er ætlað að halda stöðugleika. „Þannig að þetta er tvíeggjað sverð. Þetta eru mótvægisaðgerðir við væntingum um hærri verðbólgu,“ segir Breki.
Að hans mati er helsta áhyggjuefnið hversu háir stýrivextir þurfa alltaf að vera hér á landi.
„Þegar það ríkir stöðugleiki eru þeir háir, þegar það er uppvöxtur og uppgangur eru þeir háir, þegar það er kreppa eru háir stýrivextir. Það er eitthvað sem við þurfum að skoða.“
Breki segir að við Íslendingar greiðum mun meira fyrir húsnæði en frændfólk okkar í Færeyjum. „Við borgum 3,5% hærri húsnæðisvexti en frændfólk okkar í Færeyjum. Ef meðalheimili skuldar 12 milljónir í húsnæðislán þá erum við að tala um 400.000 til 500.000 krónur á ári sem við borgum í hærri vexti en fólk í Færeyjum.“