„Ekki tímabær vaxtahækkun“

Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins.
Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta er að okkar mati ekki tímabær vaxtahækkun,“ segir Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins, innt eftir viðbrögðum við vaxtahækkun Seðlabankans í dag.

„Ástæðan fyrir því að við teljum þetta ekki tímabæra vaxtahækkun er vegna þróunar í íslensku efnahagslífi um þessar mundir. Þrátt fyrir að hagvöxtur á fyrri árshelmingi hafi verið sterkur þá eru nú blikur á lofti. Það hægir hratt á vexti hagkerfisins og sú aðlögun hefur verið að koma fram síðustu vikurnar. Peningastefnunefnd nefnir í sinni yfirlýsingu að hagvöxtur á fyrri helmingi þessa árs hafi verið meiri en spáð var, sem er alveg rétt, en hins vegar er ljóst að þróunin er allt önnur á seinni helmingi ársins og lítil spenna sjáanleg í íslensku þjóðarbúi í dag,“ segir Ásdís.

Hún bendir einnig á að fyrirtæki séu mörg hver að ráðast í hagræðingar og uppsagnir til að bregðast við erfiðu rekstrarumhverfi og að vaxtahækkun sé ekki til þess fallin að bæta þá stöðu.

„Eins og við bjuggumst við var harður tónn í yfirlýsingunni en það eru veruleg vonbrigði að vextir séu hækkaðir nú þegar mikil óvissa er um horfurnar í efnahagslífinu.“

Engar sviðsmyndir um kjarasamninga

Ásdís gagnrýnir Seðlabankann harðlega fyrir að birta ekki sviðsmyndagreiningu um ólíka niðurstöðu komandi kjarasamninga í nóvemberhefti Peningamála, riti Seðlabankans, þar sem kjarasamningar séu einn helsti óvissuþátturinn í hagkerfinu.

„Það eru mikil vonbrigði að Seðlabankinn nýti ekki tækifærið og birti sviðmyndagreiningu um hvaða áhrif hugsanlegar niðurstöður kjarasamninga munu hafa á verðbólgu og vaxtastig í landinu. Við hefðum viljað sjá Seðlabankann draga betur fram slík áhrif í þessu riti, enda ljóst að komandi kjarasamningar eru megin óvissuþátturinn um þessar mundir,“ segir Ásdís og bætir við að í ritinu séu sviðmyndagreiningar um aðra óvissuþætti, eins og væntanlegum áhrifum viðskiptastríðs á milli Bandaríkjanna og annarra ríkja.

Már Guðmundsson seðlabankastjóri og Þórarinn G. Pétursson aðalhagfræðingur Seðlabankans. Mynd …
Már Guðmundsson seðlabankastjóri og Þórarinn G. Pétursson aðalhagfræðingur Seðlabankans. Mynd úr safni. mbl.is/Hari

„Mér finnst óskiljanlegt að Seðlabankinn nýti ekki tækifærið nú til að koma með sitt mat á hvert svigrúmið er til launahækkana miðað við þeirra efnahagsspá og hver viðbrögðin gætu orðið miðað við mismunandi forsendur. Það er erfiður vetur fram undan og hefði verið hjálplegt fyrir aðila vinnumarkaðarins að hafa slíka greiningu til hliðsjónar í því samtali sem fram undan er,“ segir Ásdís.

Seðlabankinn líti í eigin barm

Hún segir einnig að Seðlabankinn sjálfur megi einnig líta í eigin barm, verðbólguvæntingar hafi hækkað vegna þeirrar óvissu sem er fram undan í efnahagslífinu, en einnig megi ekki gleyma því að höft á innflæði fjármagns hafi átt sinn þátt í því að veikja krónuna.

Ásdís segir að á sama tíma og lífeyrissjóðir og aðrir fjárfestar hafi fært hátt á annað hundrað milljarða króna úr hagkerfinu þá hafi verið hér stíf innflæðishöft, vegna bindiskyldu Seðlabankans.

Bindihlutfallið var lækkað úr 40% niður í 20% síðasta föstudag og segir Ásdís að ef til vill hefði Seðlabankinn átt að fella bindiskylduna alveg niður og hinkra með vaxtahækkunina á meðan.

„Að okkar mati í ljósi aðstæðna hefði verið eðlilegri ráðstöfun að lækka bindiskylduna niður í 0% og meta í kjölfarið hver áhrifin yrðu á fjármagnsflæði inn í landið, stöðu krónunnar og verðbólguvæntingar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK