Greining Íslandsbanka veltir því upp í umfjöllun sinni um stýrivaxtahækkun peningastefnunefndar hvort vextir muni hækka meira á næstu mánuðum. Sérfræðingar bankans telja ekki víst að svo verði, en að þar muni ráða miklu hvort verðbólguhorfur versni frekar á næstunni og einnig hversu hratt muni hægja á vexti einkaneyslu og fjárfestingar.
„Tónninn í yfirlýsingunni er fremur harður, en þó ekki jafn eindreginn í átt til aukins aðhalds á næstu mánuðum og margir væntu,“ segir í umfjöllun greiningar Íslandsbanka.
Greinendur bankans segja að þróun verðbólgu og verðbólguvæntinga verði sem fyrr lykilatriði í næstu vaxtaákvörðunum, auk þess sem aðrir þættir, til dæmis launaákvarðanir í komandi kjarasamningum, muni vega þungt.