Tæplega 6.000 manns hafa starfað hjá Icelandair Group og WOW air í ár. Til samanburðar starfa nú um 5.300 manns á Landspítalanum.
Fram kom í Morgunblaðinu í apríl síðastliðnum að WOW air hygðist fjölga starfsmönnum úr 1.500 í ár í 2.000 á næsta ári. Að því gefnu að Íslendingar hefðu verið ráðnir í störfin hefði slík fjölgun haft umtalsverð áhrif á íslenskum vinnumarkaði.
Hefur starfsmannafjöldi félaganna margfaldast á síðustu árum í takt við stigvaxandi farþegafjölda.
Um 130 störfuðu fyrir WOW air fyrsta starfsárið, 2012, en þeir voru um 1.500 á háannatíma í sumar.
Samkvæmt upplýsingum frá Icelandair hafa um 4.500 manns starfað hjá Icelandir Group í ár. Þar af eru 3.300 hjá Icelandair og eru þá meðtaldir um 900 starfsmenn IGS sem færðust undir Icelandair í ár. Samtals hafa um 2.000 fleiri starfað hjá Icelandair Group í ár en árið 2012, þegar WOW air hóf áætlanaflug. Komið hefur fram að Icelandair hefur sagt upp fólki að undanförnu.
Þá má lesa úr tilkynningu Icelandair í gær að fyrstu tíu mánuði ársins flutti félagið 3,6 milljónir farþega, eða 1% fleiri en í fyrra.
Samanburður á fjölda starfsmanna og fjölda farþega bendir til að hlutfall starfsmanna á þennan mælikvarða sé lægra hjá WOW air.
Við þetta bætast þúsundir starfa sem skapast hafa út af fluginu hjá ótengdum félögum um land allt.
Munu fá dæmi um það í Íslandssögunni að samkeppni tveggja fyrirtækja hafi haft svo víðtæk áhrif.
WOW air stefndi að því að fara fram úr Icelandair. Sagði t.d. í fjárfestakynningu WOW air síðastliðið sumar að félagið stefndi í að verða stærra en Icelandair á næsta ári.
Karl Sigurðsson, sérfræðingur hjá Vinnumálastofnun, segir að í áætlunum fyrir vinnumarkaðinn á næsta ári hafi ekki verið gert ráð fyrir mikilli fjölgun starfa í ferðaþjónustu.
„Við vorum farin að gera ráð fyrir hægari vexti í ferðaþjónustu almennt og þ.m.t. í farþegaflutningum, þannig að það hefur óveruleg áhrif á spárnar þó þessar áætlanir WOW air rætist ekki. Það er líka spurning hversu raunhæfar spár um mikinn vöxt á næsta ári voru,“ segir Karl.
Hins vegar eigi eftir að skýrast hvaða áhrif sameining flugfélaganna mun hafa á starfafjöldann. Komi til frekari uppsagna vegna hagræðingar í framhaldinu geti það komið fram í auknu atvinnuleysi umfram spár. Vinnumálastofnun hafi spáð 2,5-2,6% atvinnuleysi á næsta ári, borið saman við 2,3-2,4% í ár.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.