Vaxtahækkunin „mikil vonbrigði“

Konráð Guðjónsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands.
Konráð Guðjónsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta kemur kannski svolítið á óvart vegna þeirrar stöðu sem efnahagslífið er í,“ segir Konráð Guðjónsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands, í samtali við mbl.is um vaxtahækkun Seðlabanka Íslands. Bankinn tilkynnti í morgun um 0,25 prósentustiga vaxtahækkun, en meginvextir bankans hækkuðu síðast á haustmánuðum 2015 og höfðu verið óbreyttir frá því í júlí í fyrra.

„Það er að hægja á og það er stuttur tími liðinn síðan að við fórum að sjá verðbólgu og verðbólguvæntingar hækka, en aftur á móti kemur það kannski ekkert á óvart að þau vilji sýna klærnar,“ segir Konráð, sem segir vaxtahækkunina þó vonbrigði.

„Þetta eru fyrst og fremst vonbrigði fyrir þá einföldu ástæðu að við vorum komin í góða kjörstöðu við það að ná varanlega lægra vaxtastigi hér á landi, vegna þess að verðbólga hefur verið lítil undanfarin ár og við höfum séð vexti lækka,“ segir Konráð og bætir við að svigrúm hafi að hans mati verið til staðar til þess að lækka vextina meira, áður en fór að hægja á í hagkerfinu.

Vonandi bara tímabundið bakslag

Hann segir að nú þegar fjárfestingarvöxtur sé farinn að minnka og farið sé að hægja á í hagkerfinu, séu það „mikil vonbrigði að það sé verið að hækka vexti á fólk og fyrirtæki á sama tíma.“

„Þetta er svolítið svekkjandi, miðað við stöðuna sem við vorum í fyrir ári síðan þegar verðbólga var lítil og við vorum á nokkuð góðum stað hvað þetta varðar, að við séum aftur að einhverju leyti á leiðinni í eitthvert gamalt far. Maður vonar að það verði ekki einhverjar frekari vaxtahækkanir en þetta og frekar að þetta sé tímabundið bakslag. Ef kjarasamningar fara aftur á móti úr böndunum með ósjálfbærum launahækkunum er þetta bara það sem koma skal,“ segir Konráð, sem einmitt verður fundarstjóri er Viðskiptaráð Íslands heldur árlegan peningamálafund sinn á Hilton Nordica hóteli á morgun, þar sem Már Guðmundsson seðlabankastjóri verður með aðalerindi.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK