80% fjölgun á skráðum heimagistingum

Heimagistingarvaktinni var komið á að til að tryggja rétta skráningu …
Heimagistingarvaktinni var komið á að til að tryggja rétta skráningu og bæta eftirlit heimagistingar. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Sérstök Heimagistingarvakt, sem efld var síðasta sumar með sérstakri fjárveitingu ferðamálaráðherra, hefur nú þegar skilað árangri. Þetta kemur fram í tilkynningu frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. 

Heimagistingarvaktinni var komið á að til að tryggja rétta skráningu og bæta eftirlit heimagistingar. Vaktin er starfrækt á vegum Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu sem hefur nú þegar samþykkt 1.860 skráningar á heimagistingu á þessu ári en á öllu síðasta ári var fjöldinn 1.059.

Í tilkynningu frá ráðuneytinu kemur fram að frá miðjum september hefur Heimagistingarvaktin framkvæmt 136 vettvangsheimsóknir á höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi og á Suðurnesjum í kjölfar upplýsinga sem fram hafa komið í ábendinga- og frumkvæðiseftirliti með óskráðri skammtímaleigu.

Lögreglan stöðvað starfsemi þriggja gististaða

Á þessum tíma hefur lögregla stöðvað starfsemi þriggja rekstrarleyfisskyldra gististaða á höfuðborgarsvæðinu og óskað hefur verið eftir lögreglurannsókn og eftir atvikum lokun á átta rekstrarleyfisskyldum gististöðum utan höfuðborgarsvæðisins. Þá hefur 18 málum verið formlega lokið með álagningu stjórnvaldssekta og tugir mála eru til meðferðar vegna brota á skráningarskyldu sem verður að óbreyttu lokið með stjórnvaldssektum.

Heildarupphæð fyrirhugaðra og álagðra stjórnvaldssekta vegna umræddra mála nemur um 40 milljónum króna.

„Það er allra hagur að farið sé að lögum við útleigu heimagistingar og það er gleðilegt að átaksverkefni í heimagistingarvakt hefur nú þegar skilað tilætluðum árangri,“ er haft eftir Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur, ráðherra ferðamála, í tilkynningu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK