Drífa Snædal forseti ASÍ segir aðvaranir Samtaka atvinnulífsins um auknar uppsagnir á vinnumarkaði ekki endilega gefa rétta mynd af stöðunni. Hún segir stjórnvöld og samtökin vera að senda „merkileg skilaboð“.
Í samtali við mbl.is setur Drífa spurningarmerki við það að ekki hafi verið spurt um nýráðningar. Þannig skili þetta ekki heildarmyndinni af stöðunni á vinnumarkaði.
Á forsíðu Morgunblaðsins í dag er greint frá því að Samtök atvinnulífsins sjá fram á aukinn fjölda uppsagna á komandi mánuðum.
„Þessi könnun gefur alls ekki heildarmyndina, heldur aðeins hluta af henni. Það hefur legið fyrir að það er að hægja á atvinnulífinu en það er pólitískt hvernig svona er sett fram,“ segir Drífa í samtali við mbl.is.
Hún vill meina að þar sem ekkert er spurt um nýráðningar í fyrirtækjum, komi aðeins fram önnur hlið málsins.
„Úrlausnarefnið er að laun mæti framfærslu. Þegar stjórnmálamenn og SA vara við að allt fari í kaldakol ef kröfum verkalýðshreyfingarinnar er mætt, eru þau að segja: við viljum ekki taka þátt í þessu úrlausnarefni,“ segir Drífa. „Það eru mjög merkileg skilaboð.“
„Þarna er bara verið að gæta ákveðinna hagsmuna, náttúrulega,“ segir Drífa. Það eru hagsmunir atvinnurekenda en ekki að vonum ekki verkalýðshreyfingarinnar.