Fá merki um slökun á vinnumarkaði

Mikil spurn eftir starfsfólki og áframhaldandi tilflutningur erlends vinnuafls eru …
Mikil spurn eftir starfsfólki og áframhaldandi tilflutningur erlends vinnuafls eru vísbendingar um að staða launafólks á vinnumarkaðnum sé enn nokkuð sterk. mbl.is/Eggert

Hagfræðideild Landsbankans segir að fá merki séu um slökun á vinnumarkaði. Samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands sé áætlað að 202.600 manns á aldrinum 16–74 ára hafi verið á vinnumarkaði í september 2018, sem jafngildi 80,8% atvinnuþátttöku. Af þeim voru 199.500 starfandi og 3.100 án vinnu og í atvinnuleit. 

Hlutfall starfandi af mannfjölda var því 79,6% og hlutfall atvinnulausra af vinnuafli var 1,5%. Starfandi fólk var um 12 þúsund fleira nú í september en var í september í fyrra.

Atvinnuþátttaka í september í fyrra var 83% og 81,8% í ár, þannig að þróunin hefur verið niður á við. Sé litið á 12 mánaða meðaltal jókst atvinnuþátttaka stöðugt frá upphafi ársins 2015 fram til vorsins 2017, að því er hagfræðideildin greinir frá.

Töluverður kraftur enn fyrir hendi á vinnumarkaðnum

Lengd vinnutíma var svipuð í september og var í september 2017. Sé miðað við 12 mánaða meðaltal var vinnutíminn í september sá sami og var í sama mánuði í fyrra og hefur hann verið nokkuð stöðugur á þann mælikvarða allt þetta ár.

Sé litið á breytinguna milli þriðja ársfjórðungs 2017 og 2018 fjölgaði heildarvinnustundum mikið, eða um 4,3%. Aukningin var töluvert umfram ársvöxt undanfarinna fimm fjórðunga. Meðalvinnuvikan lengdist um 0,3% og starfandi fólki fjölgaði um 4,1%.

„Spenna á vinnumarkaðnum er því ekki að minnka miðað við þessar tölur og þær eru í ágætu samræmi við þær hagvaxtartölur sem Hagstofan hefur birt á árinu. Töluverður kraftur virðist því enn fyrir hendi á vinnumarkaðnum,“ að sögn hagfræðideildar Landsbankans.

Staða launafólks sterk

Hún bendir einnig á að vinna við næstu kjarasamninga á almennum vinnumarkaði sé nú þegar hafin. Mikil spurn eftir starfsfólki og áframhaldandi tilflutningur erlends vinnuafls séu vísbendingar um að staða launafólks á vinnumarkaðnum sé enn nokkuð sterk.

Þá spáir hagfræðideild Landsbankans 3,9% hagvexti í ár, 2,4% 2019, 2,2% 2020 og 1,9% 2021. „Þetta er viðunandi hagvöxtur að flestra mati miðað við að hagsveiflan hefur væntanlega náð toppi sínum. Fá merki eru um að staðan á vinnumarkaðnum mundi breytast mikið á næstu mánuðum þannig að vinna við kjarasamninga mun fara fram í vinnumarkaðsumhverfi sem er í þokkalegu jafnvægi og í sterkri stöðu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka