Stjórn Reita fasteignafélags hf. samþykkti á fundi sínum í dag árshlutareikning samstæðunnar fyrir fyrstu níu mánuði ársins.
Leigutekjur námu 8.455 milljónum króna og jukust þær um 6.5% frá fyrra ári. Rekstrarhagnaður (NOI) árshlutans var 5.577 milljónir króna en á sama tíma í fyrra var hann 5.420 milljónir króna.
Matsbreyting fjárfestingareigna var 731 milljón króna en var í fyrra 2.900 milljónir. Hagnaður árshlutans var 1.526 milljónir króna, miðað við 4.276 milljónir króna í fyrra. Eigið fé í lok tímabilsins var 48.330 milljónir króna.
„Rekstur Reita hefur verið með góðu móti undanfarin misseri. Tekjur hafa vaxið umfram verðlag og rekstrarhagnaður verið ágætur. Kaup á Vínlandsleið ehf. gengu í gegn í septemberbyrjun, þá bættust rúmlega 18.000 fermetrar af vönduðu húsnæði við eignasafn Reita sem telur nú 465.000 fermetra í um 135 byggingum,“ segir Guðjón Auðunsson forstjóri í tilkynningu.
„Af nýlegum leigusamningum ber helst að nefna tvo samninga sem gerðir voru við Landspítala á dögunum, annars vegar nýr samningur um 5.000 fermetra skrifstofuhúsnæði við Skaftahlíð 24, og hinsvegar um húsnæði við Eiríksgötu 5, hús sem hýst hefur skrifstofur spítalans en verður nú breytt í göngudeild,“ bætir hann við.
„Útleiga hefur verið góð að undanförnu og útleiguhlutfall er hátt. Stjórnendur Reita sjá fjölmörg tækifæri í stafrænni þróun og samþættingu hennar við hefðbundið verslunarhúsnæði. Kringlan ætlar í framtíðinni að þjóna viðskiptavinum með heildstæðri nálgun þar sem netheimar og raunheimar renna saman í eitt. Vinna er þegar hafin við þessar breytingar en þær fara að verða sýnilegri á næsta ári.“