Forsætisráðherra hefur óskað eftir greinargerð bankaráðs Seðlabanka Íslands um mál Samherja frá þeim tíma sem rannsókn hófst á meintum brotum á reglum um gjaldeyrismál.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu. Tekið er fram að óskað sé eftir því að greinargerðin berist ráðuneytinu eigi síðar en föstudaginn 7. desember.
Þar segir að sérstaklega sé óskað eftir upplýsingum um það hvað lá að baki ákvörðun Seðlabanka Íslands um að endurupptaka málið sem tilkynnt var Samherja hf. 30. mars 2016.
„Þá óska ég einnig eftir útlistun á því hvort og þá með hvaða hætti Seðlabanki Íslands hyggist bregðast við dómnum og hvort dómsniðurstaðan kalli á úrbætur á stjórnsýslu bankans og þá hvaða.“
Þá er vakin athygli á því að lög um SÍ séu nú til heildarendurskoðunar í forsætisráðuneytinu og sé stefnt að framlagningu frumvarps til nýrra heildarlaga um SÍ á vormánuðum.
Hæstiréttur kvað upp dóm í máli SÍ gegn Samherja 8. nóvember. Í dómnum var staðfest niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur um að fella úr gildi ákvörðun SÍ frá 1. september 2016 um að Samherji skuli greiða 15 milljónir kr. í stjórnvaldssekt til ríkissjóðs vegna brota gegn reglum um gjaldeyrismál.