ON og gagnaversfyrirtækið Etix Everywhere Borealis hafa gert með sér samning um rafmagnsviðskipti vegna uppbyggingar á gagnaverum á Blönduósi og á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er annað gagnaverið sem Orka náttúrunnar semur við og með samningnum við ON hefur fyrirtækið tryggt sér yfir 10 megavött sem eru að losna úr langtímasamningum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá ON.
Etix Everywhere Borealis rekur gagnaver á Ásbrú, en mun á næstunni opna gagnaver að Fitjum og á Blönduósi. Áður hét fyrirtækið Borealis, en í september var tilkynnt um að alþjóðlega gagnaversfyrirtækið Etix Group hefði keypt 55% í félaginu og var nafninu breytt í kjölfarið.
Etix Group er að 41% hluta í eigu japanska bankans SBI Holdings. Fyrir kaupin voru helstu eigendur félagsins Brú Venture Partners með 37,52% hlut, Björn Brynjúlfsson, framkvæmdastjóri félagsins, með 16,67% og Gísli Hjálmtýsson með 13,78%.