Hollenska ferðaskrifstofan Voigt Travel hefur hafið sölu á skipulögðum ferðum til Akureyrar með leiguflugi frá Hollandi. Ferðaskrifstofan áætlar að fljúga með ferðamenn yfir tvö tímabil á næsta ári, annars vegar yfir næsta sumar og hins vegar næsta vetur frá desember fram í mars. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.
Frá lokum maí á næsta ári mun Voigt Travel, í samstarfi við flugfélagið Transavia, bjóða upp á beint flug til Akureyrar frá Rotterdam, samkvæmt tilkynningu frá ferðaskrifstofunni.
„Markaðsstofa Norðurlands og Flugklasinn Air 66N hafa leitt verkefnið og nú standa yfir viðræður við ferðaþjónustufyrirtæki á Norðurlandi um samstarf við ferðaskrifstofuna og þjónustu við farþega. Ljóst er að slíkar ferðir kalla á ýmis[s] konar þjónustu, eins og komið hefur í ljós með ferðum bresku ferðaskrifstofunnar Super Break. Áhersla ferðaskrifstofunnar verður bæði á ferðalög þar sem ferðamenn keyra sjálfir á milli staða og hópaferðalög með fararstjóra. Sú fjölbreytni þýðir betri dreifingu þessara gesta um allt Norðurland, allt frá Hvammstanga til Langaness.
Voigt Travel er ferðaskrifstofa í Hollandi með 30 ára reynslu af ferðum fyrir Hollendinga á norðlægar slóðir, þ.á m. til Finnlands, Noregs og Svíþjóðar,“ segir í fréttatilkynningu.
Verkefnastjóri Flugklasans Air 66N hafði fyrst samband við Voigt Travel í apríl 2017 og kynnti þar möguleikann á því að fljúga beint til Akureyrar. Það var svo núna í sumar sem hjólin fóru að snúast af alvöru og síðustu mánuði hefur verið unnið mjög markvisst að undirbúningi verkefnisins.
„Rétt að taka fram að nýlegar fréttir, um að ILS-aðflugsbúnaður fyrir aðflug úr norðri á Akureyrarflugvöll verði settur upp á næsta ári, h[öfðu] góð áhrif á ákvörðun Voigt Travel um að hefja sölu á ferðum til Norðurlands. Þá skipti stuðningur Flugþróunarsjóðs sköpum við að láta þetta verkefni verða að veruleika,“ segir enn fremur í tilkynningu.