Howard Wilkinson sendi fjórar skýrslur um peningaþvætti til yfirstjórnar Danske Bank, á þeim tíma sem hann var yfir viðskiptasviði útibúsins í Eistlandi, en yfirmenn bankans gerðu ekki neitt.
Wilkinson bar í dag vitni fyrir danska þinginu um peningaþvættið sem viðgekkst innan útibúsins.
Fjallað er um málið á vef danska ríkisútvarpsins DR, sem segir að það hafi verið árið 2012 sem viðvörunarbjöllur hringdu hjá Wilkinson eftir að stór bandarískur banki fór fram á að reikningi hjá bankanum yrði lokað vegna vanda með peningaþvætti hjá eistneska útibúinu. Wilkinson tók þá að skoða málið sjálfur og sendi næstu misserin fjórar skýrslur um peningaþvætti sem viðgekkst í útibúinu til höfuðstöðva bankans í Kaupmannahöfn.
„Ég fann eitt fyrirtæki í desember 2013 og hugsaði þá, er þetta kannski eitt einangrað tilfelli, eða er eitthvað kerfi í gangi?“ sagði Wilkinson. Í janúar 2014 skoðaði hann svo þrjú stærstu bresku hlutafélögin sem Danske Bank í Eistlandi hafði hvað mestan hagnað af. „Það var mjög áhugavert, af því þau voru öll skúffufyrirtæki.“
Wilkinson, sem gerðist uppljóstrari í málin Danske Bank, sendi í kjölfarið skýrslu um málið til höfuðstöðvana. Hann hélt svo rannsókn sinni áfram og ákvað að skoða 12 stærstu hlutafélögin sem skráð voru til heimilis í norðurhluta London.
„Öll skiluðu þau miklum hagnaði fyrir bankann og öll voru þau skúffufyrirtæki,“ fullyrti Wilkinson við yfirheyrsluna í dag.
Hann sendi svo fjórðu og síðustu skýrsluna um það leyti sem hann lét af störfum sem yfirmaður viðskiptasviðs útibúsins í apríl 2014. Wilkinson segir enga af skýrslunum virðast hafa hreyft neitt við vinnuveitendum hans.
„Vandinn var að í apríl 2014 þá var orðið augljóst að bankinn hafði ekki hugsað sér að gera neitt. Eftir þrjá mánuði hafi engum reikninganna sem ég benti á verið lokað,“ sagði hann. Þetta sama ár varaði hann Danske Bank við að hann myndi afhenda eistneskum yfirvöldum skýrslu sína.
„Þá fékk ég að vita að ég gæti fengið „gullna handtakið“ (innsk. góðan starfslokasamning), en að ég yrði að undirskrifa trúnaðarsamning. Samningurinn var samin af dönskum lögfræðingi sem flaug hingað til að sjá um málið. Það var alveg augljóst að yfirmaður honum æðri hafði samþykkt þetta,“ sagði Wilkinson.