Rekstrartekjur Landsvirkjunar hækkuðu um 5,7 milljarða króna fyrstu níu mánuði þessa árs borið saman við sama tímabil í fyrra. Voru tekjur fyrirtækisins 44,3 milljarðar á tímabilinu, að því er segir í níu mánaða uppgjöri Landsvirkjunar.
Hagnaður tímabilsins var 9,9 milljarðar króna, en 8,7 milljarðar í fyrra. Var hagnaður fyrir gjöld og fjármagnsliði (EBITDA) 32,4 milljarðar sem er 73,1% af tekjum. Í fyrra var þessi hagnaður 71,9% tekna.
Þá lækkuðu nettóskuldir fyrirtækisins um 11,4 milljarða og voru í lok september 215,3 milljarðar króna. Í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu segir Hörður Arnarson „lögð [er] megináhersla á lækkun skulda þannig að arðgreiðslur félagsins geti aukist“.