Skilar sér ekki til íslenskra neytenda

Runólfur segir álögur olíufélaganna á bensín vera átta krónum hærri …
Runólfur segir álögur olíufélaganna á bensín vera átta krónum hærri nú en þær voru í byrjun árs. AFP

„Við erum því miður ekki að sjá þessar breytingar á heimsmarkaði koma neytendum til góða,“ segir Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB. Heimsmarkaðsverð olíu hefur hríðfallið undanfarnar vikur og frá 3. október hefur verð á tunnu af Brent-olíu lækkað um fjórðung, úr 86 dollurum í 63 og er hráolíuverð nú svipað og það var fyrir ári. 

Hráolíuverð féll um 7% í gær og tengdu margir lækkunina við stuðningsyfirlýsingu Donald Trumps Bandaríkjaforseta í gær til ráðamanna í Sádi-Arabíu, vegna morðsins á blaðamanninum Jamal Khashoggi. Olíuverð hækkaði nokkuð á Asíu- og Evrópumörkuðum í dag, en fer þó fjarri því að slaga upp í lækkun undanfarinna vikna.

„Við ættum að vera búin að sjá miklu meiri breytingar en hafa orðið. Það er greinilegt að markaðurinn hér er að bregðast neytendum illilega og sannar kannski hið fornkveðna að fákeppnin er að skapa hér aukna dýrtíð fyrir almenna neytendur á Íslandi,“ segir Runólfur.

Runólfur Ólafsson segir lækkanir olíuverðs á heimsmarkaði ekki skila sér …
Runólfur Ólafsson segir lækkanir olíuverðs á heimsmarkaði ekki skila sér til íslenskra neytenda. mbl.is/Sigurður Bogi

Spurður hvort hann telji líklegt að bensínverðið nái aftur niður fyrir 200 kr. í þessum lækkunum bendir Runólfur á að Skeljungur hafi lækkað bensínverð um þrjár krónur í hádeginu í dag.

„Ef við tökum meðalverð mánaðar, að teknu tilliti til gengisþróunar, þá er álagning olíufélaganna á lítranum af bensíni það sem af er nóvembermánuði um 8 kr. yfir því sem hún var í byrjun árs.“ Segir Runólfur að miðað við meðaltal ársins sé  álagningin nú um 6 kr. hærri.

Þær tölur taki tillit til veikingar krónu og styrkingar Bandaríkjadals. Segir hann FÍB hafa  gagnrýnt þessa hækkun álagningar og m.a. bent á skýrslu Samkeppniseftirlitsins máli sínu til stuðnings.

Oft hafi verið bent á að félögin séu kannski fljót að lækka í byrjun, m.a. vegna aðhalds fjölmiðla, en svo skili lækkunin sér skemur en hækkunin geri. „Lækkun eftir viku er búin að skila sér 80%, á meðan að hækkunin skilar sér 100% á viku," segir hann. „Svo virðist enginn sjá tækifæri núna á þessum tímum þegar verðið er að lækka til að efla sína samkeppnisstöðu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK