Eignarhaldsfélagið Kólfur ehf. hefur undirritað samning um kaup á öllu hlutafé framtakssjóðsins Horns II í Bláa lóninu. Hlutur sjóðsins í fyrirtækinu er tæplega 20% og er metinn í bókum hans á ríflega 8 milljarða króna.
Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa lónsins, á langstærsta hlutinn í Kólfi en fyrirtækið á um 20% hlut í Bláa lóninu.
Samhliða kaupunum gefst hluthöfum Horns II hins vegar tækifæri til að ganga inn í kaupin og hafa þeir frest til loka janúarmánaðar til þess.
Stærstu hluthafar Horns II eru Lífeyrissjóður verslunarmanna og Gildi lífeyrissjóður með 18,17% hlut hvor, Landsbankinn með 7,66% hlut, Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda með 5,85% og VÍS með 5,38% hlut, að því er fram kemur í umfjöllun um kaup þessi í Morgunblaðinu í dag.