Mest í mun að væntingar kaupenda standist

Lúxuríbúðirnar í Austurhöfn munu líta svona út í endanlegri mynd …
Lúxuríbúðirnar í Austurhöfn munu líta svona út í endanlegri mynd og verða fullbúnar í lok árs 2019.

Framkvæmdir í Austurhöfn í Reykjavík, á byggingarreitnum við hlið Hörpu, ganga samkvæmt áætlun. Ístak er að ljúka við uppsteypu húsanna og stefnt er að því að fullklára fimm stjörnu Marriot Edition-hótelið og sex hæða íbúðarblokk með 71 íbúð fyrir lok árs 2019. Auk þess styttist í að bygging nýrra höfuðstöðva Landsbankans á reitnum hefjist.

Mikil uppbygging hefur staðið yfir um skeið í Austurhöfn í Reykjavík, á byggingareitunum á hafnarbakkanum á milli Hörpu og Hafnartorgs. Þrjár byggingar munu á endanum standa þar og eru þær smátt og smátt farnar að taka á sig mynd. Fyrst ber að telja Marriot Edition-lúxushótelið sem standa mun næst Hörpu. Þá kemur sex hæða íbúðabygging með 71 íbúð af ýmsum stærðum, og í þriðja lagi nýjar og glæsilegar höfuðstöðvar Landsbankans. Þær eru enn á hönnunarstigi, en vonast er til að byggingarframkvæmdir geti farið að hefjast bráðlega. Undir öllu saman er svo bílakjallari á einni til tveimur hæðum sem tengist bílakjallara Hörpu og Hafnartorgs, og verður sá stærsti á landinu.

Umsjón með uppbyggingu hótelsins og íbúðanna hefur fasteignaþróunarfélagið Íslenskar fasteignir ehf., en eigandi hótelsins sjálfs er fasteignafélagið Cambridge Plaza Hotel Company ehf. Eigendur Austurhafnar, sem reisir íbúðabyggingarnar, eru hinsvegar Hreggviður Jónsson og Eggert Dagbjartsson ásamt Arion banka með 20%.

Flóknasti bílakjallarinn

Blaðamaður fékk kost á því á dögunum að kynna sér framkvæmdirnar í fylgd Sveins Björnssonar, framkvæmdastjóra og eins eigenda Íslenskra fasteigna, og tók því boði fegins hendi, enda um sögulega og spennandi uppbyggingu að ræða, og eina mestu breytingu á miðbæ Reykjavíkur sem um getur í seinni tíð.

Eftir viðkomu í vinnuskúr þar sem menn settu upp hjálma og fóru í skærlit öryggisvesti, var haldið af stað inn á byggingarsvæðið.

Við stöldruðum fyrst við fyrir framan hótelið, þar sem Sveinn benti blaðamanni á miklar framkvæmdir sem ná langt niður fyrir sjávarmál, þar sem m.a. bílakjallarinn kemur til með að vera. Nýju stæðin sem þarna eru í smíðum eru samtals 582 talsins og teygja sig frá Tryggvagötu í suðri og upp að Hörpu í norðri. Þar af eru 100 einkastæði beint undir íbúðunum í Austurhöfn og tilheyra þeim, hvert og eitt með möguleika á rafhleðslu fyrir bílinn. Í Hörpu eru stæðin 545 og allt í allt verða því stæðin í bílakjallaranum 1.127 að tölu. „Bílastæðin undir Hörpu, Landsbankanum, Austurhöfn og Marriot Edition verða öll tengd saman. Þetta er flóknasti bílakjallari sem við hjá Íslenskum fasteignum höfum haft aðkomu að,“ segir Sveinn og brosir.

Hægt verður að keyra ofan í kjallarann frá nokkrum stöðum. „Þetta er umtalsverð fjölgun bílastæða í miðbænum. Hægt verður að aka eftir Pósthússtræti til að mynda, og beint ofan í bílakjallarann og einnig verður hægt að keyra beint niður af Hafnarbakkanum, og svo auðvitað áfram niður hjá Hörpu. Kjallarinn verður opinn 24 tíma á sólarhring alla daga ársins og verður hann vaktaður með öryggisgæslu. Allur frágangur tekur mið af frágangi í bílakjallara Hörpu ásamt fullkomnu leiðsagnakerfi.“

37 þúsund fermetrar

Sveinn segir að um töluvert heildar byggingarmagn sé að ræða ofan og neðan jarðar. „Hótelið og íbúðirnar ásamt bílakjallara eru í heildina um 37.000 fermetrar. Með því eru eins og fyrr sagði þessi einkastæði í bílakjallara, sem okkur fannst mjög mikilvægt að geta boðið upp á.“

Sveinn segir að uppsteypa íbúðanna klárist fyrir árslok, og uppsteypa hótelsins í janúar – febrúar nk.

Þegar komið er inn í íbúðirnar má sjá að útsýnið er einstakt. Horft er beint út á höfnina og Faxaflóann úr stofuglugga, en hinum megin er útsýni í átt að Hafnartorgi og miðbænum. Sveinn bendir á að íveruherbergin snúi út að þakgarði sem verður með glæsilegra móti. Svalir eru á báðum endum og alrými (stofa og eldhús) rúmgóð. „Þessi staðsetning hússins hérna megin Geirsgötunnar þýðir að íbúðirnar eru í skjóli frá skarkala miðbæjarins. Þetta er einstök staðsetning, og í mikilli nánd við helstu menningarstofnanir, og borgarlífið í heild. Auk þess ertu með lifandi atvinnulíf við höfnina fyrir augunum alla daga,“ segir Sveinn og bendir á líkindin við Akers bryggju í Osló.

Við göngum út á vinnupall á norðanverðu húsinu og horfum niður í einskonar port milli íbúðakjarnanna, sem skiptast í tvennt. Þar er þakgarðurinn að mótast, en hann verður útivistarsvæði fyrir íbúa Austurhafnar. „Þegar við fengum verkefnið breyttum við hönnuninni töluvert mikið,“ segir Sveinn og bendir á bil á milli húsanna þar sem hægt er að horfa út á Hafnartorgið. „Þetta er mjög stór breyting og skiptir miklu fyrir íbúðirnar og garðinn, því með þessu fáum við bæði aukið útsýni í suður og meiri birtu inn í garðinn og á milli húsanna.“

Sveinn segir að þó svo að í bilinu sem búið var til með þessari breytingu hafi upphaflega átt að vera íbúðir hafi ekki mjög mörgum fermetrum verið fórnað.

Eitt af því sem að sögn Sveins er einstakt við íbúðirnar er að innangengt verður í þær flestar beint úr lyftu. Þá verður endanleg lofthæð með betra móti, eða 2,7 metrar. Hiti verður í öllum gólfum og engir frístandandi ofnar. Auk þess verður öllum íbúðum skilað fulllýstum og með Lutron „smart home“-stýringum.

Sveinn bendir á að göngustígur muni liggja frá Geirsgötunni og meðfram íbúðarhúsinu, eftir svokölluðu Reykjastræti. Göngustígurinn mun liggja áfram meðfram hótelinu og að Hörpu, en einnig er hægt að taka beygju inn í sundið milli hótelsins og íbúðanna, og ganga þar í gegn og út á hafnarbakkann.

Hafnarbakkamegin verður neðsta hæðin lögð undir verslana- og veitingarekstur, en fasteignafélagið Reginn festi kaup á því húsnæði öllu. Ekki liggur fyrir enn hvaða rekstur mun koma í þau bil, en gagnkvæmur skilningur er um það á milli aðila að sögn Sveins, að þar verði gæðin í fyrirrúmi.

Spenntur að sjá viðtökurnar

Mikið verður lagt í ytra byrði hússins, með fallegum og margvíslegum klæðningum að sögn Sveins, sem koma til með að brjóta upp heildina. „Við klæðum húsið með standandi kopar, álplötum með zink áferð, mjög stórum sléttum flísum, sjónsteypu og steinflísum.“

Gert er ráð fyrir að sala íbúðanna hefjist fljótlega. Segist Sveinn vera spenntur að sjá hverjar viðtökurnar verða, en það er fasteignasalan Miklaborg sem heldur utan um söluna. „Við munum bjóða upp á ólíka stærðarflokka af íbúðum. Um 20% íbúðanna eru á bilinu 50-100 fermetrar, 34% íbúðanna eru á bilinu 100-150 fermetrar og svo eru hin 46% sem eftir standa á bilinu 170-360 fermetrar.“

Sveinn segir að fjórar stærstu íbúðirnar verði á bilinu 300-360 fermetrar. „Þetta eru þakíbúðirnar. Að okkar mati er einstakt að bjóða upp á íbúðir af þessari stærð í miðbæ Reykjavíkur. Um 30% íbúðanna eru annars á bilinu 170-210 fermetrar. Þessar mörgu stóru íbúðir sem við erum að bjóða eru að okkar mati hluti af sérstöðu þessa verkefnis.“

Þá segir Sveinn að nálægðin við Edition-hótelið, Hörpu, veitingastaði, kaffihús og verslanir á reitnum sé mikill kostur fyrir íbúðirnar, og íbúar geti nýtt sér þá þjónustu sem þar verður í boði.

„Svo eru það öryggismálin. Það verður aðgengisstýring fyrir hverja íbúð, og ekki verður hægt að komast inn í anddyri stigaganganna nema með aðgangskorti.“

Sveinn segir að almennt séð sé forsvarsmönnum Austurhafnar mest í mun að væntingar væntanlegra kaupenda standist. „Þess vegna er nostrað við smáatriðin, og fyrir vikið er mikið um sérsmíði í húsinu, hvort sem er í minni íbúðunum eða þeim stærri.“

Nostur við smáatriði og vönduð sérsmíði mun einnig sjást í anddyrum húsanna, þar sem fólk á að fá sömu tilfinningu og fæst inni í íbúðunum sjálfum. „Allur frágangur miðar að því að þetta verði ekki þessi dæmigerði hvítmálaði hrái stigagangur.“

Enn eitt sem er sérstakt við íbúðirnar að sögn Sveins er sú staðreynd að sérstakt baðherbergi fylgir hverju einasta svefnherbergi í flestum íbúðunum. Að auki er eitt gestaklósett í langflestum íbúðunum.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK