Mátti ekki setja mál Samherja í sáttaferli

Már Guðmundsson seðlabankastjóri.
Már Guðmundsson seðlabankastjóri. mbl.is/​Hari

Már Guðmundsson seðlabankastjóri segist hafa rætt um að setja mál Samherja í sáttaferli, áður en félagið var kært í fyrra skiptið fyrir brot á gjaldeyrislögum. Hann fékk hins vegar þau svör að hann hefði ekki mátt gera það, því þá hefði hann verið að brjóta lögin. „Okkur ber að kæra.“

Þetta sagði Már sem var gestur Kristjáns Kristjánssonar í þættinum Sprengisandur á Bylgjunni í dag. 

Hann benti m.a. á að árin eftir hrun hefðu gjaldeyrishöftin lekið.

„Á þessum tíma láku höftin all verulega, sérstaklega á árinu 2009. Það bæði vantaði upp á skilaskylduna og það var verið að koma með aflandskrónur í stórum stíl til landsins. Menn voru náttúrulega að græða á öllu þessu, en sá hagnaður féll ekki af himnum ofan. Hann kom úr vasa almennings. Og okkar skylda var að reyna að láta þessi höft halda. Við þurftum auðvitað að kosta ýmsu til og það tókst að lokum; þau hertust. Ég held að skilaskyldan, eða skilin, hafi batnað þegar á leið,“ sagði Már. 

Þetta hafi verið skylda sem bankinn hafi tekið alvarlega.

„Okkur ber að kæra, við uppfyllum það, ef rökstuddur grunur er; við eigum ekki að leggja mat á það hvað er best fyrir okkur. Þetta er bara ótvíræða skylda,“ sagði Már. 

„Ef menn ætla að segja að þetta hafi verið einhvern sérstök herferð frá mér, þá reyndi ég að kanna þann möguleika, áður en Samherji var kærður í fyrra sinn, sagði við mína lögfræðinga: „Er ekki hægt að setja þetta mál í sáttaferli, vegna þess að svona mál eru flókin?“, og þá var kallað á hæstaréttarlögmann sem sagði bara réttilega og las úr blöðunum: „Þú mátt það ekki; þá er þú að brjóta lögin“,“ sagði Már. Honum hafi því borið að kæra þó aðeins lægi fyrir grunur um brot. 

„Þarna þarf, held ég, að skoða lögin líka,“ sagði Már.

Eins og fram hefur komið, þá staðfesti Hæstiréttur fyrr í þessum mánuði dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í apríl á síðasta ári um að felld skyldi úr gildi 15 milljóna króna stjórnvaldssekt sem Seðlabanki Íslands lagði á Samherja hf. fyrir brot á gjaldeyrislögum. Þar með lauk málarekstri Seðlabankans sem hafði staðið yfir í tæp sjö ár. 

Þá hefur komið fram, að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra óskaði eftir greinargerð bankaráðs Seðlabanka Íslands um mál Samherja. Katrín óskar meðal annars eftir útlistun á því hvort og þá með hvaða hætti Seðlabankinn hygðist bregðast við dómi Hæstaréttar og hvort dómsniðurstaðan kalli á úrbætur á stjórnsýslu bankans og þá hverjar.

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, hefur haldið því fram að Már Guðmundsson og yfirlögfræðingur SÍ hafi rekið málið gegn Samherja áfram af illum vilja og er Samherji að undirbúa skaðabótamál á hendur SÍ vegna málsins. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK